Samtök iðnaðarins (SI) segja að Pawel Bartoszek, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, hafi farið með rangt mál þegar hann sagði á Facebook að það stefni í metár í byggingu nýrra íbúða í Reykjavík.

„Ný íbúðatalning SI styður alls ekki þessa fullyrðingu formannsins,“ segja Samtök iðnaðarins í tilkynningu.

„Samkvæmt talningu SI eru í Reykjavík nú tæplega 1.900 íbúðir í byggingu og nemur samdrátturinn á milli ára 24 prósent. Á sama tíma í fyrra voru um 2.500 íbúðir í byggingu í Reykjavík sem þýðir að nú eru 600 færri íbúðir í byggingu. Ef horft er til ársins 2019 þá voru á þessum tíma 2.735 íbúðir í byggingu í Reykjavík og því mælist samdrátturinn frá þeim tíma 31 prósent. Það verður því að teljast langt frá því að vera metár líkt og formaðurinn fullyrðir. Rétt er að benda á að Húsnæðis- og mannvirkjastofnun (HMS) hefur áætlað að það þurfi 3.000-3.500 nýjar íbúðir á markaðinn árlega næstu árin en ekki um 2.000 eins og formaðurinn heldur fram,“ segja samtökin.

Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins.

Samtök iðnarins segja að þær tölur sem formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar vitnar til séu að þeirra mati rangar en þar sé um að ræða tölur frá byggingafulltrúum á íbúðum í byggingu sem skili sér seint og illa. „Þær lýsa þær þar af leiðandi með engum hætti þeirri stöðu sem er í íbúðabyggingum á hverjum tíma. Það er meðal annars ástæða þess að Samtök iðnaðarins hófu talningu á íbúðum í byggingu til að fá fram raunsannari mynd af stöðunni,“ segir í tilkynningunni.

Þá vitnar formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar til þess að í deiliskipulagi sé samþykkt skipulag fyrir 3.000 íbúðir til viðbótar. „Hafa þarf í huga að í talningu Samtaka iðnaðarins er íbúð í byggingu frá því að sökkull er kominn þar til flutt er inn í hana. Fjöldi íbúða í deiliskipulagi borgarinnar er því allt annar hlutur en talning samtakanna og er ekki mælikvarði á íbúðir í byggingu í borginni,“ segja samtökin.

Samtök iðnaðarins segja að vonir og væntingar um skipulag fari ekki saman við raunveruleikann enda taki það langan tíma að gera byggingarsvæði tilbúið til framkvæmda. Nefna megi í því sambandi byggingarsvæði sem séu búin að vera lengi tilbúin í deiliskipulagi en hafi enn ekki komist til framkvæmda, t.d. Vesturbugt, Heklureitur, Blómavalsreitur , Sigtúnsreitur og Skeifan. „Það er því engin vissa fyrir því að þær 3.000 íbúðir sem formaður skipulags- og samgönguráðs teflir fram raungerist

Hvað varðar þá skoðun formannsins að framsetning SI á talningu íbúða sé stundum eilítið fókuseruð á hið neikvæða undanfarin tvö ár þá sýna íbúðatalningar Samtaka iðnaðarins að nú hafa ekki verið færri íbúðir í byggingu síðustu fjögur ár. Það verður því ekki horft framhjá þeirri staðreynd að samdráttur hefur verið í byggingu íbúðarhúsnæðis á höfuðborgarsvæðinu og þar með talið í Reykjavík.

„Margsinnis hafa samtökin varað við þessari þróun, m.a. vegna þess að fækkun íbúða í byggingu boðar minna framboð fullbúinna íbúða. Afleiðingar af of litlu framboði nýrra íbúða á markaðinn hafa komið fram í hækkun fasteignaverðs með tilheyrandi áhrifum á verðbólgu og vexti. Ef brugðist hefði verið við þeim varnaðarorðum af hálfu sveitarfélaga á höfuðborgarsvæðinu og þ.m.t. í Reykjavík væri ekki sá mikli framboðsskortur sem einkennir íbúðamarkaðinn nú,“ segir í tilkynningu Samtaka iðnaðarins.