Samkeppniseftirlitið hefur lagt blessun sína yfir kaup Lyfju á Árbæjarapóteki. Er það mat eftirlitsins að samanlögð hlutdeild apótekanna sé ekki það mikil að líkur séu á því að markaðsráðandi staða styrkist eða myndist vegna kaupanna. Auk þess séu ekki vísbendingar um að samruninn raski samkeppni að öðru leyti með umtalsverðum hætti.

Samkeppniseftirlitinu var tilkynnt um kaupin um miðjan nóvember í fyrra. Lyfja er stærsta lyfsölukeðja landsins og rekur fjölmörg apótek undir merkjum Lyfju og Apóteksins en Árbæjarapótek, sem hefur starfað frá árinu 1971, rekur eitt apótek í Hraunbæ í Árbæ.

Eins og áður sagði var það niðurstaða Samkeppniseftirlitsins að ekki væru forsendur til íhlutunar vegna kaupanna. Eftirlitið tekur þó fram í niðurstöðukafla ákvörðunar sinnar að í ljósi þess að Lyfja og helsti keppinautur keðjunnar, Lyf og heilsa, njóti sterkrar stöðu á markaði fyrir smásölu lyfja sé tilefni til þess að taka til ítarlegrar skoðunar kaup umræddra keðja á keppinautum.

Fram kom í tilkynningu sem Lyfja sendi frá sér í tilefni af kaupunum í nóvember að ef kaupin gengju eftir myndi Lyfja reka alls 46 apótek og útibú um allt land með tæplega 400 starfsmenn. Þá myndi Kristján Steingrímsson lyfsali láta af störfum sem lyfsöluleyfishafi Árbæjarapóteks.