Bandaríkjaþing hefur samþykkt efnahagspakka til að bregðast við áhrifum heimsfaraldurs COVID-19 en pakkinn hljóðar upp á 900 milljarða Bandaríkjadala. Mitch McConnell, leiðtogi Repúblikana innan öldungadeildarinnar, greindi frá því um helgina að sátt hafi náðst um pakkann en Donald Trump, sitjandi Bandaríkjaforseti, mun samþykkja pakkann á næstu dögum.
Pakkinn er meðal annars hugsaður til þess að aðstoða fyrirtæki sem hafa lent illa í faraldrinum og til kaupa á bóluefni. Þá er kveðið á um 300 dala hækkun á vikulegum atvinnuleysisbótum og 600 dala ávísun til allra Bandaríkjamanna. Sá pakki muni fylgja öðrum stærri efnahagspakka, sem einnig var samþykktur í gær, sem er ætlað að styðja við ríkisreknar stofnanir en sá pakki hljóðar upp á 1,4 billjónir dala. Alls er því um að ræða aðgerðir upp á 2,3 billjónir dala
Ósammála um efni pakkans
Mikið hefur verið tekist á um efnahagsaðgerðir vegna faraldursins á þingi en Demókratar og Repúblikanar hafa hingað til verið ósammála um innihald og stærð pakkans. Þingmenn frá báðum flokkum þurftu að falla frá einhverjum kröfum svo hægt væri að samþykkja pakkann fyrir árslok en að öllu óbreyttu hefðu efnahagsaðgerðirnar runnið út um áramótin.
Engu að síður hafa þingmenn Demókrata ýjað að því að þeir muni fara fram á að aukið fjármagn verði sett í aðgerðirnar þegar Joe Biden, nýkjörinn Bandaríkjaforseti, tekur við embætti þann 20. janúar næstkomandi. „Ég lít á þetta sem fyrsta skrefið og aftur, það þarf að gera meira,“ sagði Nancy Pelosi, forseti fulltrúadeildarinnar, síðastliðinn sunnudag.
IT'S OFFICIAL: Senate clears $2.3 trillion coronavirus relief/omnibus package.
— Heather Caygle (@heatherscope) December 22, 2020
Massive bill now goes to Trump for his signature. The 5,593 bill has ~$900b in COVID relief, breaking 8-month stalemate.@sarahnferris @MZanona @AndrewDesiderio: https://t.co/C9z02UtqLF