Á­kveðið hefur verið að sam­þætta rekstur Air Iceland Connect og Icelandair. Air Iceland Connect, áður Flugfélag Íslands, er dóttur­fé­lag Icelandair Group og sinnir innan­lands­flugi og á­ætlunar­flugi til Græn­lands. „Starf­semi fé­laganna verður sam­einuð, svo sem flug­rekstrar­svið, sölu- og markaðs­mál, mann­auðs­mál, fjár­mála­svið og upp­lýsinga­tækni. Fé­lögin verða þó á­fram með að­skilin flug­rekstrar­leyfi og á­hafnir Air Iceland Connect verða á­fram starfs­menn þess fé­laga,“ segir í frétta­til­kynningu frá Icelandair.

Staða fram­kvæmda­stjóra Air Iceland Connect verður sam­hliða lögð niður. „Árni Gunnars­son, nú­verandi fram­kvæmda­stjóri Air Iceland Connect, mun taka við sem fram­kvæmda­stjóri Iceland Tra­vel á næstu vikum, en Björn Víg­lunds­son [núverandi framkvæmdastjóri Iceland Travel] mun láta af störfum. Árni mun vinna náið með stjórn­endum Icelandair að sam­þættingu rekstrar flug­fé­laganna og mun Björn á­fram stýra Iceland Tra­vel á meðan á þessari vinnu stendur,“ segir í tilkynningunni.

„Í því á­standi sem nú ríkir erum við að leita allra leiða til hag­ræðingar í rekstri Icelandair Group og teljum við mikil tæki­færi í því að sam­þætta flug­rekstur okkar enn frekar. Um leið og ég þakka Árna Gunnars­syni fyrir mikil­vægt fram­lag við upp­byggingu Air Iceland Connect á síðustu 15 árum, býð ég hann vel­kominn til starfa á nýjum vett­vangi innan fé­lagsins. Á sama tíma vil ég þakka Birni Víg­lunds­syni fyrir mjög gott starf og mikið fram­lag til Icelandair Group sam­stæðunnar,“ er haft eftir Boga Nils Boga­syni, for­stjóra Icelandair Group í frétta­til­kynningunni.