Lee Jae-yong, erfingi Sam­sung sam­stæðunnar, hefur verið dæmdur í fangelsi fyrir spillingu en hæsti­réttur í Suður-Kóreu dæmdi Lee í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir mútur, fjár­drátt og fyrir að leyna á­góða af af­brota­starf­semi þegar hann tók við sem yfir­maður sam­stæðunnar.

Að því er kemur fram í frétt BBC um málið hefur Lee stjórnað sam­stæðunni frá árinu 2014 en gert er ráð fyrir að dómurinn muni hafa gífur­leg á­hrif á sam­stæðuna. Eftir að dómurinn féll lækkuðu hluta­bréf Sam­sung um rúm­lega fjögur prósent í verði en hafa þó hækkað ör­lítið í dag.

Lee tók við stjórnar­taumum Sam­sung, eftir að faðir hans, Lee Kun-hee, var lagður inn á spítala. Faðir hans lést síðan í fyrra og var þá gert ráð fyrir breytingum í hlut­hafa­hópnum vegna erfða­fjár­skatts, sem er 65 prósent ef sá sem nýtur góðs af arfinum er stærsti hlut­hafi fjöl­skyldu­fyrir­tækis.

Áður dæmdur í fimm ára fangelsi

Þetta er í annað sinn sem málið er tekið fyrir af dóm­stólum en Sam­sung var sakað um að greiða háar upp­hæðir til þess að auð­velda stjórnar­skipti innan sam­stæðunnar. Lee var upp­runa­lega dæmdur í fimm ára fangelsi árið 2017 fyrir að múta fyrr­verandi for­seta Suður-Kóreu, Park Geun-hye, en Park var þar einnig dæmd fyrir mútu­þægni.

Dómur Lee var skömmu síðar gerður skil­orðs­bundinn og losnaði hann úr fangelsi í febrúar 2018. Lee hafði þegar setið í varð­haldi í um það bil ár og mun því lík­lega að­eins þurfa að sitja inni í 18 mánuði til við­bótar. Lög­menn hans hafa lýst yfir von­brigðum vegna dómsins en þeir segja málið að mestu leyti snúast um spillingu for­setans.