Lee Jae-yong, erfingi Samsung samstæðunnar, hefur verið dæmdur í fangelsi fyrir spillingu en hæstiréttur í Suður-Kóreu dæmdi Lee í tveggja og hálfs árs fangelsi fyrir mútur, fjárdrátt og fyrir að leyna ágóða af afbrotastarfsemi þegar hann tók við sem yfirmaður samstæðunnar.
Að því er kemur fram í frétt BBC um málið hefur Lee stjórnað samstæðunni frá árinu 2014 en gert er ráð fyrir að dómurinn muni hafa gífurleg áhrif á samstæðuna. Eftir að dómurinn féll lækkuðu hlutabréf Samsung um rúmlega fjögur prósent í verði en hafa þó hækkað örlítið í dag.
Lee tók við stjórnartaumum Samsung, eftir að faðir hans, Lee Kun-hee, var lagður inn á spítala. Faðir hans lést síðan í fyrra og var þá gert ráð fyrir breytingum í hluthafahópnum vegna erfðafjárskatts, sem er 65 prósent ef sá sem nýtur góðs af arfinum er stærsti hluthafi fjölskyldufyrirtækis.
Áður dæmdur í fimm ára fangelsi
Þetta er í annað sinn sem málið er tekið fyrir af dómstólum en Samsung var sakað um að greiða háar upphæðir til þess að auðvelda stjórnarskipti innan samstæðunnar. Lee var upprunalega dæmdur í fimm ára fangelsi árið 2017 fyrir að múta fyrrverandi forseta Suður-Kóreu, Park Geun-hye, en Park var þar einnig dæmd fyrir mútuþægni.
Dómur Lee var skömmu síðar gerður skilorðsbundinn og losnaði hann úr fangelsi í febrúar 2018. Lee hafði þegar setið í varðhaldi í um það bil ár og mun því líklega aðeins þurfa að sitja inni í 18 mánuði til viðbótar. Lögmenn hans hafa lýst yfir vonbrigðum vegna dómsins en þeir segja málið að mestu leyti snúast um spillingu forsetans.
The Seoul High Court sentenced Samsung’s top leader, Lee Jae-yong, to 2,and a half years in prison for bribing South Korea’s former president, Park Geun-hyehttps://t.co/G3V2IiTVm5
— Alfons López Tena (@alfonslopeztena) January 18, 2021