Nú er liðin vika síðan tilkynnt var um skráningu Alvotech á NASDAQ markaðinn í Bandaríkjunum með samruna við sérstaka yfirtökufélagið Oaktree Acquisition Corp. II. Viðskiptin miðuðu við innspýtingu eigin fjár í Alvotech upp á 450 milljónir Bandaríkjadali, sem skiptist þannig að nýir stórir fjárfestar lögðu inn 150 milljónir, núverandi hluthafar 50 milljónir og úr sjóðum Oaktree yfirtökufélagsins áttu að renna 250 milljónir dala.

Innspýtingin úr sjóðum Oaktree er þó háð því að engir núverandi hluthafar nýti sér innlausnarrétt sinn. Sérstök yfirtökufélög eru ólík venjulegum hlutafélögum á markaði að því leyti að hluthafar þeirra hafa rétt á að innleysa hluti sína á nafnvirði, sem almennt er 10 dalir á hlut.

Þessi réttur er til að verja hluthafa, en við upphaflega stofnun og sölu hluta í sérstökum yfirtökufélögum er ekki vitað hvaða fyrirtæki verður fyrir valinu fyrir samruna. Stundum er ekki einu sinni skilgreint í hvaða geira atvinnulífsins samruninn verður. Þess vegna er hluthöfum tryggður réttur til að innleysa hluti sína á nafnvirði ef þeim líst ekki á fyrirtækið sem fer í eina sæng með yfirtökufélaginu.

Á þessu ári hefur borið nokkuð á því að hluthafar í sérstökum yfirtökufélögum nýti sér rétt sinn til innlausnar. Skammt er síðan stafræna fjölmiðlunarfyrirtækið BuzzFeed tilkynnti að eigendur 94 prósent hlutafjár í yfirtökufélagi, sem átti að tryggja 288 milljón dala innspýtingu við samruna, hefðu nýtt sér innlausnarrétt sinn þannig að innspýtingin varð á endanum einungis 16 milljónir.

Samruni og skráning Alvotech kemur því á óvissum tímum í viðkvæmu fjárfestingarumhverfi. Í Fréttablaðinu á laugardag sagði Róbert Wessman, stjórnarformaður Alvotech, fjögur atriði mestu máli skipta varðandi það hvort samruni og skráning af þessu tagi heppnist. Eitt þeirra atriða er að mikilvægt sé að fá að trausta fjárfesta með nýtt hlutafé inn í fyrirtækið samhliða samrunanum við yfirtökufélag.

Þegar bornir eru saman annars vegar samruni og skráning Alvotech og hins vegar BuzzFeed sést að Alvotech tryggir sér 200 milljónir dala í nýtt hlutafé, eða um 45 prósent af heildarfjármögnuninni, en BuzzFeed fær enga eiginfjárinnspýtingu umfram þá fjármuni sem koma áttu úr sjóðum sérstaka yfirtökufyrirtækisins.

Viðskipti með hlutafé í Oaktree Acquisition Corp. II eftir tilkynninguna í síðustu viku hafa verið nokkuð lífleg og að samruninn hefur engin áhrif haft á verð hlutabréfa. Það þarf ekki að koma á óvart þar sem hluthafar geta alltaf innleyst hluti sína fremur en að selja þá á markaði með afföllum. Engar tilkynningar hafa hins vegar borist um innlausnir hluta.

Um 10 prósent hluta í Oaktree, að verðmæti um 25 milljónir dala, skiptu um eigendur strax daginn eftir samrunatilkynninguna og dagleg viðskipti síðan nema að jafnaði um 300 þúsund dölum. Þetta bendir til þess að fjárfestar sjái hagnaðarfæri í því að eiga hluti í sameinuðu félagi og að óbreyttu ætti því samruninn að tryggja Alvotech þær 450 milljónir dala, eða 60 milljarða króna, sem að var stefnt.