Stjórnir Kviku banka, TM og Lykils fjármögnunar samþykktu í dag að sameina félögin. Viðræður hafa átt sér stað milli félaganna á undanförnum vikum og framkvæmdar hafa verið gagnkvæmar áreiðanleikakannanir. Stjórnir félaganna hafa nú farið yfir niðurstöður þeirra og ákveðið að sameina félögin.

Þetta kemur fram í tilkynningu félaganna til Kauphallarinnar.

Samkvæmt samrunasamningi, sem samþykktur var í dag, mun TM færa vátryggingastarfsemi sína í dótturfélag sitt, TM tryggingar hf. Í kjölfarið fari fram þríhliða samruni Kviku, TM og Lykils. TM tryggingar verða í kjölfarið dótturfélag sameinaðs félags.

Samrunasamningurinn er gerður með nokkrum fyrirvörum, meðal annars þeim að FME veiti samþykki fyrir samrunanum og Samkeppniseftirlitið ógildi hann ekki eða setji íþyngjandi skilyrði. Þá er hann gerður með fyrirvara um samþykki hluthafa.

Samkvæmt samrunasamningnum munu hluthafar TM fá, sem endurgjald fyrir hluti sína í TM, 2.509.934.076 hluti í Kviku sem greitt verður með útgáfu nýs hlutafjár. Fjöldi útgefinna hluta í Kviku er í dag 2.103.635.839 og því munu hluthafar TM fá í sinn hlut um 54,4% útgefins hlutafjár í Kviku m.v. útgefið hlutafé í dag.

Í tilkynningunni kemur fram að Kvika kunni að gefa út nýtt hlutafé fram að afhendingardegi á grundvelli núverandi samningsskuldbindinga þar að lútandi. Af þeim sökum getur hlutfallið breyst fram að afhendingardegi.

„Sameinað félag verður fjárhagslega sterkt fyrirtæki með breiðan tekjugrunn sem mun geta boðið viðskiptavinum sínum upp á fjölþætta þjónustu á öllum helstu sviðum fjármála- og tryggingaþjónustu. Stjórnir félaganna telja raunhæft að fyrirvarar samrunasamningsins verði uppfylltir og að félögin verði sameinuð á fyrsta ársfjórðungi 2021,“ segir í tilkynningunni.

Stjórnir beggja félaga eru sammála um skipulag og skipurit sameinaðs félags. Marinó Örn Tryggvason og Sigurður Viðarsson, forstjórar félaganna, munu áfram gegna stöðum sínum. Marinó Örn Tryggvason verður forstjóri Kviku og Sigurður Viðarsson verður forstjóri TM trygginga. Fjármála- og rekstrarsviði Kviku verður skipt upp í tvö svið eftir samrunann; Ragnar Páll Dyer mun gegna starfi framkvæmdastjóra fjármálasviðs og Ólöf Jónsdóttir, framkvæmdastjóri Lykils, mun hefja störf hjá Kviku og gegna starfi framkvæmdastjóra rekstrar- og þróunarsviðs.

Í tilkynningunni segir að stjórnir félaganna telji raunhæft að með samrunanum megi ná fram 1.200 til 1.500 milljóna króna árlegri kostnaðarsamlegð, án viðskipta- og einskiptiskostnaðar.