Samrunar og yfirtökur eru líkast til í vændum á evrópskum flugmarkaði, að því er segir í dálkinum Lex í Financial Times, einum virtasta fjármáladálki heims. Þar er bent á að samanlögð markaðshlutdeild sex stærstu flugfélaga Bandaríkjanna sé um 90 prósent á meðan hlutdeild sex stærstu flugfélaga Evrópu sé aðeins 43 prósent.

„Hörð samkeppni í Evrópu - ásamt hærri reglugerðakostnaði - gerir félögum þar erfiðara um vik að hagnast,“ segir Lex sem bendir - máli sínu til stuðnings - á að hagnaður evrópskra flugfélaga sé að meðaltali 7,58 dalir á hvern farþega. Það sé meira en helmingi minni hagnaður en í bandaríska fluggeiranum.

Yfir 200 flugfélög starfa í Evrópu, að sögn Lex, eða meira en tvöfalt fleiri en í Bandaríkjunum þar sem erlendum fyrirtækjum er meinað að sinna innanlandsflugi.

Lex bendir á að samrunabylgja hafi á sínum tíma gengið yfir bandaríska markaðinn og ekki sé ólíklegt að slíkt hið sama gerist í Evrópu, sér í lagi ef olíukostnaður, sem er einn stærsti kostnaðarliður flugfélaga, helst áfram hár.

Michael O’Leary, forstjóri Ryanair, sagði í maí síðastliðnum að sameiningar á evrópskum flugmarkaði myndu gera það að verkum að evrópski markaðurinn yrði á endanum eins byggður upp og sá bandaríski, þar sem fjögur til fimm stór flugfélög ráða ríkjum. Lex bendir á að þreifingar um sameiningar hafi þegar átt sér stað. Þannig hafi IAG, eigandi British Airways, tvívegis gert yfirtökutilboð í allt hlutafé Norwegian á þessu ári, þó án árangurs.

Í umfjöllun Lex segir jafnframt að eftir verulegar lækkanir á verði flugmiða í Evrópu á undanförnum 25 árum sé útlit fyrir að sameiningar flugfélaga muni - til lengri tíma litið - snúa þeirri þróun við. Til skamms tíma muni hækkandi olíuverð hins vegar leiða til hærri flugfargjalda. Margt eigi auk þess eftir að ráðast af því hvort flugfélög dragi úr framboði sínu. Um þessar mundir er framboðið að aukast um sex prósent, að sögn Lex, en búist er við því að það hægist á aukningunni í vetur.