Stjórnarmeðlimir Twitter hafa fundað um mögulega yfirtöku Elon Musk á samfélagsmiðlinum samkvæmt fréttum sem birtust á CNN fyrr í dag.

Musk er nú þegar orðinn einn stærsti hluthafi fyrirtækisins en hann eignaðist 9,2 prósenta hlut í fyrirtækinu nýverið.

Alvara hafi færst í málin þegar Musk birti fyrirtækinu kaupáætlun ásamt fjármögnun upp á 46,5 milljarða Bandaríkjadala eða um 6 þúsund milljarða íslenskra króna.

Samkvæmt heimildum fréttablaðsins inniheldur kauptilboðið um 21 milljarð Bandaríkjadala af eigin fé Elon Musk eða 2700 milljarða íslenskra króna. Talið er líklegt að niðurstöðu í málinu sé að vænta á næstunni eða mögulega strax á mánudaginn.

Elon Musk sem í dag er metin á yfir 270 milljarða Bandaríkjadollara er listaður sem ríkasti maður heims og ætti því vel að eiga fyrir reikningnum skildu kaupin ganga í gegn.

Sjálfur segir Musk að kaupin séu drifin áfram af hugsjónum hans um tjáningarfrelsi en hann tjáði í yfirlýsingu til stjórnarmanna Twitter að miðillinn sé „vettvangur frjálsrar umræðu um allan heim“ og að hann sjálfur hafi óbilandi trú á frjálsri tjáningu.

En hvort sem um hugsjónir eða markaðssjónarmið er að ræða er víst að ef samningar nást sé um einn stærsta samning síðustu ára að ræða.