Jakobsson Capital verðmetur Kviku banka á 28,1 krónu á hlut en nú er markaðsvirði bankans 26,6 krónur á hlut.

„Kviku gekk allt í haginn á fyrstu níu mánuðum ársins 2021,“ segir í verðmati Jakobsson Capital sem birt var 2. desember og Markaðurinn hefur undir höndum. „Kvika er að ná fram samlegð mun fyrr en áætlanir voru uppi um. Vaxtamunur Kviku hefur hækkað svo um munar. Í eldri greiningum sínum lýsti Jakobsson Capital vanda Kviku og að vandi fyrirtækisins var að komast í vaxtaberandi eignir. Ljóst er að samlegðin með Lykli var mikil en ávinningurinn var meiri en í villtustu draumum sérhvers Excel-nörds. Vaxtamunur Kviku hækkaði úr 1,6 prósentum í 2,2 prósent milli fyrstu níu mánaða ársins 2020 og 2021. Það er þrátt fyrir að vaxtatekjur Lykils fyrir fyrsta ársfjórðung vanti. Rétt er þó að hafa í huga að vaxtamunur Kviku var óvenjulega lágur í fyrra en hann hefur verið um 2,0 prósent að meðaltali. Erfitt var að ná honum hærra með eldra viðskiptalíkani.“

Að auki voru aðstæður sérstaklega hagfeldar fyrir fjárfestingarbankarekstur. Þóknunartekjur Kviku jukust um 17,7 prósent á fyrstu níu mánuðum ársins samanborið við sama tíma í fyrra. „Rekstur TM gengur glimrandi vel og virðist fyrirtækið vera búið að finna beinu brautina,“ segir í verðmatinu.

Samsett hlutfall TM var 89,1 prósent á fyrstu níu mánuðum ársins 2021. „Hér verður þó að hafa í huga að annar og þriðji ársfjórðungur eru bestir í rekstri. Líklegt er því að samsett hlutfall endi eitthvað fyrir ofan 90 prósent. Það er þó mjög góður árangur en samsett hlutfall TM var 98,5 prósent að meðaltali á árunum 2016 til 2020,“ segir í verðmatinu.

Jakobsson Capital er sammála forsvarsmönnum Kviku banka um að það þurfi nýja hugsun í bankarekstri. „Miklar breytingar eru á bankaumhverfi nú og hafa ekki verið meiri í áratugi. Við slíkar aðstæður er hætta á að bankar sem eru of íhaldssamir við núverandi aðstæður, staðni. Stjórnendur Kviku hafa verið útsjónasamir í þeim efnum. Mikil stærðarhagkvæmni er í bankarekstri. Fyrst byrjaði Kvika á að sameina smærri eignastýringarfyrirtæki, Virðingu, Gamma og Alda-sjóði. Nú er stefna Kviku að kaupa og sameinast smærri útlánafyrirtækjum. Ljóst er að sameining Kviku og Lykils skilaði gríðarlegum ávinningi í formi samlegðar í efnahagsreikningi félaganna.

Á fjárfestafundi Kviku kom skýrt fram að vöxtur væri markmið Kviku. Ef litið er á núverandi lánasafn má sjá að ekki hefur verið mikill vöxtur þar síðustu 6 mánuði og hefur lánasafnið vaxið um 2 prósent. Það virðist því vera sem að vexti verði náð að hluta með ytri vexti en ekki eins mikið með innri vexti,“ segir í verðmatinu.