Oddný G. Harðardóttir vakti máls á sölu á hlutum ríkisins í íslensku bönkunum í sérstökum umræðum á þingfundi í dag.

Spurningunni um framtíðarbankakerfið ekki svarað af hálfu stjórnvalda

„Það hefur verið nokkurs konar samkvæmisleikur að reyna að geta sér þess til hvernig ríkisstjórnin sjái framtíðarbankakerfið fyrir sér hér á landi og aðkomu ríkisins að þeim rekstri,“ sagði Oddný sem fannst ekki tímabært að undirbúa sölu bankanna á meðan almenn umræða eða stefnumótun stjórnvalda um framtíðarskipulag fjármálakerfisins hafi ekki farið fram.

„Almenningur ber ekki mikið traust til bankakerfisins í heild en treystir ríkinu til að reka banka,“ sagði Oddný og vísaði til Gallup-könnunar sem birt var í hvítbók sem sýnir að einungis 14% vilja að einkaaðilar reki bankana. Talaði Oddný um að asi væri á fjármálaráðherra í því ferli að koma hlutum ríkisins í bönkunum í hendur einkaaðila. „Spurningunni um hvernig framtíðarbankakerfið eigi að vera svo það þjóni almenningi sem best hefur ekki verið svarað af hálfu stjórnvalda.“

Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra, svaraði og benti hann á að Oddný hefði sjálf talað fyrir því að ríkið væri ekki langtímaeigandi bankanna í tíð hennar sem fjármálaráðherra. Sagði Bjarni ríkisstjórnina hafa unnið ötullega að þeim málum sem mestu skipta til að undirbúa breytt eignarhald ríkisins á bönkunum.

Ríkið verði áfram fjárfestir í Landsbankanum til langframa

„Varðandi eigendastefnuna er unnið að endurskoðun á eigendastefnu ríkisins vegna eignarhluta í fjármálafyrirtækjum. Helstu áherslur sem lagt er upp með við þessa breytingu eru í fyrsta lagi að ríkið verði áfram leiðandi fjárfestir í Landsbankanum til langframa, í öðru lagi verði tryggt að einn kerfislega mikilvægur banki eigi ávallt höfuðstöðvar á Íslandi og í þriðja lagi að stuðlað verði að stöðugleika í fjármálakerfinu og nauðsynlegir innviðir þess tryggðir, þar með talin greiðsluþjónustan, og að í fjórða lagi verði horft til þess að allir landsmenn eigi kost á almennri, vandaðri og traustri fjármálaþjónustu.“

Ekki augljóst hvernig vinda skal ofan af eignarhaldinu

„Íslandsbanki var yfirtekinn með stöðugleikaframlagi árið 2016 og var rætt um þá ráðstöfun með þeim hætti að hér litu menn svo á að um skammtímaeign ríkisins væri að ræða. Það er hins vegar ekki alveg augljóst hvernig á að vinda ofan af eignarhaldinu. Í þessari ríkisstjórn, þeirri sem síðast sat, ríkisstjórninni þar áður og í vinstri stjórninni 2009–2013 hefur verið horft til þess að draga úr eignarhaldi ríkisins. Í ríkisfjármálaáætlunum hefur verið gert ráð fyrir því að það fjárstreymi sem myndi leiða af sölunni myndi skila sér til að lækka vaxtakostnað ríkisins. Það hefur reyndar gengið þannig fram að vaxtakostnaðurinn er horfinn að því umfangi sem við höfðum ætlað að nota sölu fjármálafyrirtækja til að lækka hann en við höldum enn eignarhlutunum. Ég lít þannig á að það séu gríðarlega mikil tækifæri í því að breyta eignarhaldinu en vandinn liggur í því hvernig við getum með aðferðafræðinni best gætt að heildarhagsmunum ríkisins og þeim markmiðum sem við erum hér að ræða. Það er samtal sem við þurfum að eiga betur við Bankasýsluna, hvort við eigum að fara í einhvers konar skráningarferli, útboð eða hvort aðrar mögulegar leiðir séu heppilegri til að ná markmiðum okkar.“