Samkeppnisyfirvöld í Bandaríkjunum saka Google um að rukka hugbúnaðarfyrirtæki of mikið fyrir að selja í gegnum verslunina Play Store sem er samtvinnuð Android stýrikerfinu eða allt að 30 prósent. Þetta kemur fram í frétt Financial Times.

Apple hefur verið gagnrýnt mun meira opinberlega en Google fyrir þóknunina sem það tekur fyrir að selja í gegnum App Store. Epic Games hefur til dæmis kært Apple fyrir samkeppnisbrot á þeim grundvelli.

Utah-ríki leiðir ákæruna en 35 önnur ríki taka þátt. Þau saka Google um að viðhalda einokunarstöðu varðandi dreifingu á forritum í Android og á markaðnum sem snýr að því að borga fyrir forritin.

Google segir að það sé ekki rétt að hugbúnaðarfyrirtæki og notendur Android séu þvinguð til að nota Play Store og ganrýndi óbeint að Apple setti meiri skorður hvað varðar App Store.

Google hefur fullyrt að meiri samkeppni ríki um sölu á hugbúnaði fyrir Android en Apple því stýrkerfi Google heimili aðrar verslanir en Play Store.

Ríkin gætu átt erfitt með að sanna að Google sé með markaðsráðandi stöðu. Android er með 42 prósenta markaðshlutdeild en Apple er með 58 prósent. Að sama skapi er það líka vandinn sem Epic Games glímir við í málinu gegn Apple, að færa rök fyrir markaðsráðandi stöðu, segir í fréttinni.