Áfrýjunarnefnd samkeppnismála hafnaði kröfu Isavia um gjaldtöku fyrirtækisins fyrir svokölluð ytri rútustæði við Flugstöð Leifs Eiríkssonar í úrskurði í gær.

Þá telur áfrýjunarnefndin að Isavia sé í einokunarstöðu og undirbúningur hafi verið óvandaður. Fyrirtækið hafi ekki gert viðhlítandi grein fyrir kostnaði við að veita þjónustu við stæðin. Sennilegt sé að gjaldtaka Isavia sé óhófleg og ólögmæt.

Þann 1. mars í ár hóf Isavia gjaldtöku á rútustæðunum og var ætlun fyrirtækisins að „styrkja óflugtengda tekjustofna“ til að kosta uppbyggingu á flugvellinum. 17. júlí tók Samkeppniseftirlitið (SKE) bráðabirgðaákvörðun þar sem Isavia var gert að stöðva tímabundið gjaldtöku.

SKE segir að til hafi staðið að hækka gjöldin verulega þann 1. september er svokallaður afsláttur á aðlögunartímabili átti að falla niður. Gjaldtakan var stöðvuð því sennilega væri Isavia að misnota stöðu sína með óhóflegri verðlagningu.

„Ekki er um það deilt að félagið sé í markaðsráðandi stöðu og jafnframt í ákveðinni einokunarstöðu þegar kemur að rekstri þeirra flugvalla sem þjóna millilandaflugi til og frá Íslandi,“ segir í úrskurðinum.

Jafnframt var talið sennilegt að Isavia hafi mismunað viðskiptavinum í verðlagningu og skilmálum. Bið eftir endanlegri ákvörðun gæti skaðað samkeppni og haft veruleg skaðleg áhrif á rekstur fyrirtækja sem nýta þurfi stæðin.

Isavia krafðist þess að áfrýjunarnefnd samkeppnismála felldi ákvörðun SKE úr gildi. Með úrskurði sínum hafnaði áfrýjunarnefnd þessari kröfu. Byggir nefndin meðal annars á því að Isavia sé í einokunarstöðu og samkeppnislög geri ríkar kröfur til slíkra fyrirtækja.