Lágt raforkuverð á samkeppnismörkuðum íslenskra gagnavera skapar talsverðar áskoranir fyrir atvinnugreinina, sem horfir fram á versnandi samkeppnishæfni.

„Hagstætt og fyrirsjáanlegt raforkuverð hefur í gegnum tíðina verið einn af stóru þáttunum sem hafa skapað íslenskum gagnaverum það samkeppnisforskot sem hefur skilað þeim á þann stað sem þau eru í dag, en til viðbótar við aðgengi að hreinni orku þurfa þau einnig góðar nettengingar og aðgengi að frábæru starfsfólki. Öll þessi atriði þurfa ætíð að vera samkeppnishæf við það sem best gerist erlendis. Stór hluti af þeim áskorunum sem við stöndum frammi fyrir núna, er hins vegar að Ísland er ekki lengur samkeppnishæft þegar kemur að raforkuverði, en sú staða er grafalvarleg, sérstaklega í ljósi hægari umsvifa í öðrum útflutningsgreinum,“ segir Jóhann Þór Jónsson, formaður Samtaka gagnavera, í samtali við Markaðinn.

Hann bendir á að útflutningstekjur gagnavera hafi numið 12 milljörðum króna árið 2018 og að uppbygging atvinnugreinarinnar hafi ekki krafist meiriháttar fjárfestinga eða aðstoðar af hálfu ríkisins.

Orkuverð til notenda er að mestu sett saman af fjórum þáttum: Raforkuverði frá fyrirtækjum á borð við Landsvirkjun, ON, og HS orku; flutningskostnaði Landsnets, dreifikostnaði veitna og sköttum.

Jóhann segir að til viðbótar við lægra orkuverð erlendis, sé mikill munur á kostnaði við flutning og dreifingu á raforku á Íslandi, samanborið til dæmis við Noreg og Svíþjóð, sem leiðir til þess að heildarorkukostnaður verði umtalsvert lægri í þessum löndum samanborið við Ísland. Þá áformar Landsnet fjárfestingu upp á tugi milljarða í flutningskerfi sínu í tengslum við kerfisáætlun til að bæta raforkuöryggi, en það getur orðið til þess að raforkuverð til stórnotenda hækki umtalsvert á næstu árum.

„Fyrir liggur í áætlunum Landsnets að þetta getur valdið töluverðum hækkunum á dreifikostnaði stórnotenda. Að okkar mati þurfa ákvarðanir um fjárfestingar í flutningskerfi að byggja á samkeppnishæfni orkumarkaðarins og orkufrekra fyrirtækja. Þær mega ekki byggja einungis á sjónarmiðum um raforkuöryggi og hag orkuframleiðenda,“ segir Jóhann.

„Við erum nú þegar í ósamkeppnishæfu umhverfi og frekari hækkanir á flutningskostnaði veita samkeppnishæfni íslenskra gagnavera þungt högg.“

Þegar þessi stóru fyrirtæki taka ákvarðanir um hýsingu horfa þau mjög gjarnan til Norðurlandanna og við þurfum að vera með í því samtali.

Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ráðherra ferðamála, iðnaðar og nýsköpunar, fékk erlendu ráðgjafarstofuna Fraunhofer / Ecofy til að gera úttekt á samkeppnishæfni stórnotenda á Íslandi, með sérstaka áherslu á raforkukostnað. Bundnar eru vonir við að niðurstöðurnar verði kynntar í þessum mánuði.

Í úttektinni, sem nær til allra stórnotenda raforku á Íslandi, verður farið yfir hvaða atriði hafa áhrif á raforkukostnað stóriðju á Íslandi, hlut orkukostnaðar í rekstrarkostnaði og hvernig raforkukostnaður sé samansettur. Raforkukostnaður og samkeppnishæfni stórnotenda á Íslandi verður borið saman við nágrannalönd á borð við Noreg, Þýskaland og Kanada.

„Aðalatriðið okkar er að þarna komi fram raunsönn mynd og hlutlaust mat,“ segir Jóhann og bætir við að úttektin þurfi að taka ýmis sérkenni íslenska orkumarkaðarins til greina. Þar á meðal flutningskostnað og ósveigjanleg atriði raforkusamninga. Þá hafa Samtök iðnaðarins ákveðið að fá álit sérfræðinga á ýmsum þáttum raforkumarkaðarins, aðallega stöðu Landsvirkjunar á markaðinum, hvort að kostnaðarverð og markaðsverð sé vel skilgreint í lögum, og hvort Landsvirkjun beri skylda til að heimta hámarksverð fyrir raforku.

Jóhann Þór Jónsson, formaður Samtaka gagnavera.

„Ástæðan fyrir því að Samtök Iðnaðarins ákváðu að fá þetta álit, er að málflutningurinn í kringum raforkuverð er oft dálítið furðulegur og því tímabært að fá ýmis atriði á hreint, sem síðan verða dregin saman í heildstæða greiningu á vegum samtakanna síðar á árinu,“ segir Jóhann.

COVID-19 heimsfaraldurinn hefur haft áhrif á markaðsstarf íslenskra gagnavera. Samtök gagnavera hafa haldið fundi með Íslandsstofu til þess að undirbúa markaðsherferð sem ætlað er að markaðssetja Ísland sem ákjósanlegan stað fyrir gagnaver og laða að ný gagnaver og viðskiptavini sem henta vel íslensku gagnaversumhverfi. Ef áformin ganga eftir hefst markaðsherferðin seint á þessu ári.

„Við viljum haga markaðsstarfinu og nýta þá fjármuni sem eru til staðar þannig að allir gangi í takt, bæði gagnaverin og aðrir aðilar markaðarins,“ segir Jóhann. Öflugt markaðsstarf sé nauðsynlegt til þess að Ísland verði á ratsjá þeirra fyrirtækja sem huga að útvistun, til dæmis á sínum ofurtölvum sem þurfa mikla kælingu og þar hentar íslenskt veðurfar einstaklega vel til að skapa okkur ákveðið samkeppnisforskot.

„Þegar þessi stóru fyrirtæki taka ákvarðanir um hýsingu horfa þau mjög gjarnan til Norðurlandanna og við þurfum að vera með í því samtali.“

Raforkukaup gagnavera dragast samanFréttablaðið greindi frá því í byrjun árs að raforkukaup gagnavera á Suðurnesjum hefðu dregist saman vegna minni eftirspurnar frá viðskiptavinum. Eyjólfur Magnús Kristinsson, forstjóri Advania Data Centers, sagði notkun viðskiptavina fyrirtækisins hafa dregist saman um 10 MW frá því í lok árs 2018. Orkuverðið sem gagnaverum býðst á Íslandi væri ekki samkeppnishæft og hætta væri á frekari samdrætti þegar kæmi að endurnýjun samninga við stóra viðskiptavini.

„Í okkar tilviki hefur notkun dregist saman um 10 MW frá því í lok árs 2018, án þess þó að viðskiptavinum hafi fækkað eða að nýting á plássi sé lakari hjá okkur. Það er ekki ákvörðun sem Advania Data Centers tekur heldur hafa viðskiptavinir sem leigja hjá okkur aðstöðu ákveðið að draga úr raforkunotkun sinni,“ sagði Eyjólfur.

Þá benti hann á að orkuverð í miðborg Stokkhólms væri um 20 prósentum lægra en það sem fyrirtækinu byðist á Íslandi.

„Almennt séð er mikil eftirspurn eftir raforku, en það er aftur á móti minni eftirspurn eftir raforku á þeim verðum sem hafa verið að bjóðast á Íslandi. Gagnaversmarkaðurinn er að vaxa ævintýralega í löndum á borð við Noreg og Svíþjóð, en vöxturinn hefur ekki verið eins mikill á Íslandi. Það eru einfaldar ástæður fyrir því og ein af þeim er hátt raforkuverð.“