Samkeppniseftirlitið hefur birt yfirlýsingu á heimasíðu sinni þar sem brugðist er við umfjöllun Markaðarins er varðar Lúðvík Bergvinsson lögmann sem var skipaður sérstakur kunnáttumaður af Samkeppniseftirlitinu í kjölfar þess að N1 og eftirlitið náðu samkomulagi um sátt vegna kaupa olíufélagsins á Festi í lok júlí árið 2018.

Hér má lesa yfirlýsingunar í heild sinni.

Markaðurinn greindi frá því í dag að kostnaður smásölufélagsins Festar af störfum Lúðvíks, sem fylgist með því að skilyrðum í sátt félagsins við Samkeppniseftirlitið vegna kaupa N1 á Festi sé fylgt eftir, hefði samanlagt numið tæplega 33 milljónum króna í fyrra.

Í Skotsilfri Markaðarins í dag var skipan Lúðvíks jafnframt gerð að umtalsefni en þar var fullyrt að hann hefði verið skipaður „að kröfu Samkeppniseftirlitsins, sem hafði lagst gegn tillögu félaganna um annan mann í starfið.“ Þá var nefnt að Lúðvík væri góður vinur Ásgeirs Einarssonar, aðstoðarforstjóra Samkeppniseftirlitsins.

Af þessu tilefni vekur Samkeppniseftirlitið athygli á því að þann 31. ágúst 2018 birti Festi frétt á Nasdaq Iceland – Kauphöll, þar sem greint er frá skipan kunnáttumanns. Þar er kemur fram að þann 9. ágúst 2018 hafi forstjóri N1 tilnefnt „þrjá einstaklinga sem félagið taldi hæfa til að gegna hlutverki hins óháða kunnáttumanns.

„Að undangengnu hæfismati féllst Samkeppniseftirlitið á að Lúðvík Bergvinsson yrði falið hlutverk óháða kunnáttumannsins.“ Af þessu er ljóst að ekki er rétt farið með í Fréttablaðinu að þessu leyti,“ segir í yfirlýsingu Samkeppniseftirlitsins.

Stofnunin tekur fram að við fyrrgreint hæfismat hafi komið í ljós að hinir tveir aðilarnir sem félagið tilnefndi höfðu tengsl við félagið, keppinauta þess eða markaði sem það starfar á, sem þóttu skapa vafa um óhæði gagnvart a.m.k. tilteknum verkefnum sem falla undir störf kunnáttumanns.

„Þá er rétt að fram komi að aðstoðarforstjóri Samkeppniseftirlitsins kom ekki að umræddu hæfismati,“ segir í yfirlýsingunni.

Hagræði af kunnáttumönnum

Samkeppniseftirlitið fjalla síðan ýtarlega um kunnáttumenn, verkefni þeirra og kostnaðaraðhald. Bent er á að þeir séu oft í stöðu til þess að leysa úr álitaefnum sem upp koma, sem og kvörtunum keppinauta og viðskiptavina, með skjótvirkari hætti en samkeppnisyfirvöldum er unnt.

„Þannig getur skipan eftirlitsaðila leitt til töluverðs hagræðis bæði fyrir viðkomandi fyrirtæki og samkeppnisyfirvöld. Auk þess er sem fyrr segir stuðlað enn frekar að því að m.a. samrunar fyrirtækja valdi almenningi ekki tjóni,“ segir í yfirlýsingunni.

Samkeppniseftirlitinu er, að eigin sögn, umhugað um að eftirfylgni með sáttum sé skilvirk og góð og hefur beint tilmælum til viðkomandi fyrirtækja þar að lútandi. Varðandi kostnað við störf umræddra eftirlitsaðila hefur Samkeppniseftirlitið beint því til fyrirtækjanna að hafa sambærilegt eftirlit með þeim þætti og í tilviki annarra utanaðkomandi ráðgjafa sem fyrirtækin nýta sér.

Athugasemd: Ritstjórn Markaðarins stendur við umfjöllun sína.