Með kaupum KS á Gunnars hefðu runnið saman tveir af stærstu framleiðendum á majónesi og köldum sósum á Íslandi. Gunnars er stórt vörumerki í þessum vöruflokki og KS framleiðir og dreifir sömu vörutegundum undir merkjum E. Finnsson.
Félagið Gunnars var upphaflega stofnað árið 1960 af hjónunum Gunnari Jónssyni og Sigríði Regínu Waage undir nafninu Gunnars majónes.
Að mati Samkeppniseftirlitsins hefði samruninn haft alvarlegar afleiðingar fyrir samkeppni, viðskiptavinum og neytendum til tjóns.
Til að byrja með hefði markaðsráðandi staða orðið til á nánar tilgreindum mörkuðum fyrir hreint majónes og aðrar tilbúnar kaldar sósur sem skilgreindir eru nánar í ákvörðuninni. Eru fyrirtækin með mjög sterka stöðu á vörumörkuðum málsins.
Þannig hefði sameinað fyrirtæki orðið stærsta fyrirtækið á viðkomandi mörkuðum og með umtalsverða yfirburði yfir helsta keppinaut sinn Kjarnavörur. Þá eru fáir framleiðendur að majónesi hérlendis og hefði þeim fækkað um einn vegna samrunans.
Fyrirtækin eru einnig nánir og mikilvægir keppinautar við framleiðslu og sölu á hreinu majónesi og tilbúnum köldum sósum. Með kaupum KS á Gunnars hefði því náinn og mikilvægur keppinautur horfið af sviðinu og þar með það samkeppnislega aðhald sem því fylgir.
Aðgangshindranir eru auk þess til staðar sem hindra samkeppni og gera innkomu burðugs keppinautar eða stækkun keppinauta ólíklegri en ella. Þá vegur kaupendastyrkur fárra aðila á dagvörumarkaði ekki upp á móti skaðlegum áhrifum samrunans með fullnægjandi hætti.
Skaðleg útilokunaráhrif og lóðrétt samþætting hefði eins aukist. Fyrir samrunann er Kaupfélag Skagfirðinga lóðrétt samþætt fyrirtæki með fjölþætta og víðfeðma starfsemi. Með samrunanum hefðu umsvif samstæðu Kaupfélagsins og lóðrétt samþætting þess aukist sömuleiðis.
Í krafti aukinnar samþættingar og stöðu hins sameinaða fyrirtækis á aðliggjandi vörumörkuðum málsins hefði samruninn haft skaðleg útilokunaráhrif fyrir samkeppni á fráliggjandi mörkuðum, líkt og nánar greinir í ákvörðuninni.