Samkeppniseftirlitið hefur sent erindi á Samtök fjármálafyrirtækja (SFF) og krafið framkvæmdastjórann um skýringar og gögn fyrir opinbera umræðu félagsins hvað varðar tryggingafélögin á Íslandi og kvörtun FÍB vegna hagsmunagæsluna samtakanna til Samkeppniseftirlitsins.
Í tilkynningu frá FÍB segir að undanfarið hafi samtökin bent á samræmt iðgjaldaokur tryggingafélaganna í bifreiðatryggingum og að lítil eða engin viðbrögð hafi borist frá fjórum tryggingafélögum sem á markaði eru.
„Hins vegar snerust Samtök fjármálafyrirtækja til varnar fyrir hönd tryggingafélaganna í grein sem framkvæmdastjórinn, Katrín Júlíusdóttir ritaði og birti á netmiðlinum Vísi. Í greininni bar Katrín brigður á málflutning FÍB um skort á verðsamkeppni og stöðuga hækkun iðgjalda ökutækjatrygginga. Í greininni var einnig að finna tilvísun í töluleg gögn frá Hagstofunni sem ekki stóðust skoðun,“ segir í yfirlýsingunni frá FÍB.
Þau segja að í vikunni hafi þau sent kvörtun til Samkeppniseftirlitsins vegna hagsmunagæslu SFF fyrir hönd aðildarfélaga á vátryggingarmarkaði og að stofnunin hafi brugðist hratt við og sent út erindi á framkvæmdastjórann.
Þar bendir Samkeppniseftirlitið SFF á að fyrirsvar fyrir tryggingafélögin öll sem eitt geti haft samkeppnishindrandi áhrif á markaðinn og að SFF sé óheimilt að verja verðlagningu aðildarfélaga sinna á opinberum vettvangi. Slík sé ekki eðlilegt hlutverk hagsmunasamtaka keppinauta.
Samkeppniseftirlitið bendir á að bann samkeppnislaga taki til SFF sem hagsmunasamtaka keppinauta á fákeppnismarkaði. ,,Samkvæmt því ákvæði er samtökum fyrirtækja óheimilt að ákveða samkeppnishömlur eða hvetja til hindrana sem bannaðar eru samkvæmt lögunum. Bann 10.gr. samkeppnislaga tekur til aðildarfyrirtækja SFF,“ segir í erindinu sem sent var til SFF í gær.
SFF fær samkvæmt erindinu frest til 29. september 2021 til að skila inn gögnum um möguleg afskipti samtakanna varðandi verðlagningu aðildarfélaga. Meðal annars er óskað eftir afritum af öllum samskiptum SFF við aðildarfyrirtæki á tímabilinu frá 1. maí 2021 til dagsins í dag. Einnig er óskað eftir afritum af öllum gögnum sem tengjast viðbrögðum við SFF við gagnrýni á verðlagningu eða aðra samkeppnisþætti. Í framhaldi af því mun Samkeppniseftirlitið ákveða hvort að málið verði tekið til frekari skoðunar.