Samkeppniseftirlitið beinir því til hagsmunaaðila að tjá sig ekki í umræðum um verð. Í yfirlýsingu frá stofnuninni er vísað í umfjöllun fjölmiðla um yfirvofandi vöruskort á ýmsum sviðum, hækkandi verð og truflanir pöntunum. Er sérstaklega vikið að ummælum Halldórs Benjamíns Þorbergssonar, framkvæmdastjóra Samtaka atvinnulífsins, í frétt RÚV þar sem hann sagði „mjög líklegt að [vöru]skorturinn til skamms tíma muni valda verðhækkunum alla vega á einhverjum vöruflokkum.“

Þá hafi Andrés Magnússon, framkvæmdastjóri Samtaka verslunar og þjónustu lýst yfir áhyggjum af því að „það verði áfram þrýstingur á verðlag vegna innfluttrar verðbólgu […]“ í grein í Viðskiptablaðinu undir fyrirsögninni „Frekari hækkanir í vændum“ ásamt því að lýsa því yfir í ViðskiptaMogganum að „greinilegt“ sé að „þær hækkanir sem orsakast af þessum miklu hrávöruhækkunum, […] eru ekki að fullu komnar fram [á Íslandi]“.

Þá var haft eftir Gunn­ari Þor­geirs­syni, formanni Bændasamtaka Íslands, að verðhækkanir á tilbúnum áburði muni á endanum leiða til hækkunar á afurðaverði og nefndi sem dæmi framleiðslu á grænmeti og mjólkurafurðum.

Lagaákvæði setji hagsmunasamtökum skorður

Í tilkynningunni segir að ákvæði samkeppnislaga setji hagsmunasamtökum skorður í hagsmunagæslu sinni og verða samtök fyrirtækja því að fara afar gætilega þegar kemur að umræðu og fræðslu sem getur haft áhrif á markaðshegðun félagsmanna.

„Öll þátttaka í umræðu um verð og verðlagningu er sérstaklega varhugaverð og ætti ekki að eiga sér stað á vettvangi hagsmunasamtaka.“

Sérstaklega er brýnt að gætt sé að þessu þegar í hlut eiga fákeppnismarkaðir og efnahagserfiðleikar steðja að. „Neytendur eiga heimtingu á því að fyrirtæki ákveði sjálfstætt hvernig þau hegða sér á markaði og hvernig þau verðleggja vörur sínar. Einnig er mikilvægt við aðstæður sem þessar að neytendur veiti fyrirtækjum öflugt aðhald.“