Í nýlegri skýrslu Landbúnaðarháskóla Íslands (LbhÍ), sem unnin var fyrir atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið, er fjallað um fæðuöryggi á Íslandi. Í skýrslunni kemur meðal annars fram hversu stóru hlutverki innlendir matvælaframleiðendur gegna við að stuðla að fæðuöryggi hér á landi. Jafnframt er í skýrslunni fjallað um þær fjórar meginforsendur sem íslenskt samfélag byggir fæðuöryggi sitt á. Við fyrstu sýn mætti halda að fæðuöryggi og samkeppni ættu lítið sameiginlegt. Samkeppni hefur hins vegar bein áhrif á fæðuöryggi eins fjallað er um í skýrslu, sem rituð er af Steve McCorriston, prófessor við Exeter háskóla, í ritröð á vegum Matvæla- og landbúnaðarstofnun Sameinuðu þjóðanna frá árinu 2016, Competition and food security.


Innlendir matvælaframleiðendur og samkeppni þeirra á milli


Innlendir matvælaframleiðendur gegna lykilhlutverki við að stuðla að fæðuframboði fyrir landsmenn í núverandi umhverfi en þar stendur innlend búfjárrækt undir 90 prósentum neyslu kjötafurða, innlendir eggjaframleiðendur undir 96 prósentum af neyslu eggja og innlendir mjólkurframleiðendur undir 99 prósentum af neyslu mjólkurvara.

Í skýrslu LbhÍ er jafnframt fjallað um fjórar meginforsendur fyrir fæðuöryggi hér á landi. Í fyrsta lagi að auðlindir séu til staðar. Í öðru lagi að aðgengi að aðföngum, svo sem innfluttri olíu, tækjum, áburði og fóðri, sé tryggt. Í þriðja lagi að þekking á framleiðslu og tækni til framleiðslu sé til staðar. Í fjórða lagi að birgðir séu til af þeirri fæðu sem innlendir framleiðendur geti ekki tryggt.

Fimmta forsendan, sem færa má rök fyrir að vanti í skýrslu LbhÍ, er mikilvægi samkeppni á milli innlendra matvælaframleiðenda, en virk samkeppni hefur jákvæð áhrif á framboð landbúnaðarafurða, nýsköpun, þjónustu og í þessu tilviki hag neytenda og bænda.


Samkeppnisvandamál á matvælamörkuðum


Þróun markaðsaðstæðna á matvælamörkuðum hefur á síðastliðnum áratugum verið í átt til aukinnar sérhæfingar og samþjöppunar þar sem dagvörusölum og úrvinnsluaðilum, svo sem afurðastöðvum, hefur fækkað og þeir sem eftir eru hafa stækkað. Stærri einingum getur fylgt aukið hagræði en á sama tíma getur markaðsstyrkur þeirra sem eftir eru aukist að sama skapi. Mikill markaðsstyrkur getur leitt til freistnivanda fyrir viðkomandi fyrirtæki sem felst helst í því að hið markaðsráðandi fyrirtæki beiti sér með þeim hætti að keppinautar þess veikjast eða hætta starfsemi.

Stærri einingum getur fylgt aukið hagræði en á sama tíma getur markaðsstyrkur þeirra sem eftir eru aukist að sama skapi.

Dæmi um þetta eru brot á samkeppnislögum sem framin hafa verið á mjólkurmarkaði. Þannig lagði finnska samkeppniseftirlitið 70 milljóna evra sekt á finnsku mjólkurafurðastöðina (Valio) á árinu 2012 fyrir skaðlega undirverðlagningu (e. predatory pricing). Taldi eftirlitið að háttsemin hefði haft það að markmiði að ýta öðrum mjólkurafurðastöðvum út af markaðnum. Hefði það svo þau áhrif að mjólkurafurðastöðin yrði ein eftir á markaði og gæti hækkað verð aftur. Niðurstaðan var staðfest af dómstólum en þetta var í annað sinn sem Valio var sektað fyrir brot á samkeppnislögum.

Sænska samkeppniseftirlitið fjallaði einnig um misnotkun mjólkurafurðarstöðvarinnar Arla á markaðsráðandi stöðu sinni. Hafði Arla krafist þess að bændur myndu afhenda fyrirtækinu að minnsta kosti 80 prósent af hrámjólk sinni. Málinu lauk eftir að Arla breytti skilmálum sínum og bændur gátu selt keppinautum Arla allt að helming sinnar framleiðslu

Annað dæmi er 480 milljóna króna sekt sem Samkeppniseftirlitið lagði á Mjólkursamsöluna á árinu 2016 vegna meðal annars brots hennar á banni við misnotkun á markaðsráðandi stöðu. Þessi niðurstaða var staðfest af dómstólum en 4. mars síðastliðinn birti Hæstiréttur Íslands dóm sinn í málinu. Rétturinn taldi að sú „mikla mismunum sem var á verðlagningu áfrýjanda á hrámjólk til ótengdra aðila og verði til eigin framleiðslu hafi falið í sér alvarlegan og langvarandi verðþrýsting sem var einnig fallinn til að verja markaðsráðandi stöðu áfrýjanda og þannig hafi þessi háttsemi falið í sér brot á 11. gr. samkeppnislaga.“

Samráð milli keppinauta getur einnig haft skaðleg áhrif. Þannig hafa frönsk samkeppnisyfirvöld til að mynda sektað viðskipta­aðila bænda fyrir að sammælast um hversu mikið yrði keypt af svínum af þeim, en markmiðið var að lækka afurðaverð til bændanna. Þá hafa spænsk samkeppnisyfirvöld sektað kaupendur hrámjólkur af bændum fyrir að skipta viðskiptum við bændur á milli sín og sammælast um að greiða lágt verð fyrir mjólkina.

Öll þessi háttsemi hefur þau neikvæðu áhrif að fæðuframboð og -öryggi minnkar, keppinautar hrökklast út af markaði, nýjar vörur verða ekki til og hagur bænda og neytenda versnar.


Áhrif samkeppni á fæðuframboð og hag bænda og neytenda


Eins og ráða má af umfjölluninni hér að framan þá stuðlar virk samkeppni á meðal innlendra matvælaframleiðenda að auknu fæðuöryggi hér á landi. Þetta vill hins vegar oft gleymast í almennri umræðu. Það er því mikilvægt að samkeppnisyfirvöld sem og önnur stjórnvöld grípi ekki til aðgerða sem raska samkeppni og draga úr framboði matvæla og nýsköpun og hækka verð sem að lokum leiðir til minna fæðuöryggis hér á landi og rýrir hag bænda og neytenda.

Það kemur því ekki á óvart að í skýrslu á vegum Matvæla- og landbúnaðarstofnunar Sameinuðu þjóðanna hafi verið fjallað um mikilvægi þess að stjórnvöld gleymi ekki mikilvægi virkrar samkeppni í stefnumörkun sinni á sviði fæðuöryggis.

Höfundur er aðalhagfræðingur Samkeppniseftirlitsins.