Samkaup, sem rekur verslanirnar Nettó, Krambúðina, Kjörbúðina og Iceland, hefur lækkað verð á yfir 400 vörunúmerum undir vörumerkjum Änglamark og lágvörumerkinu X-tra í öllum verslunum sínum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu.

Þetta þýðir að viðskiptavinum bjóðast sambærilegt verð eða lægri en í upphafi árs. Lækkunin nemur 10 prósentum og kemur hún til með að halda óbreytt fram til áramóta hið minnsta. Með þessum lækkunum er markmiðið að sporna gegn áhrifum verðbólgu á dagleg innkaup landsmanna.

„Við hjá Samkaupum höfum lagt allt kapp á að berjast gegn hækkunum á vöruverði og tekist að halda hækkunum í lágmarki til að mynda með innflutningi á vörumerkjum eins og Änglamark og X-tra. Þetta þýðir að verðlækkanirnar sem tóku gildi á mánudaginn eru verulegar. Við bjóðum viðskiptavinum okkar því sama verð eða lægra en það var í upphafi árs. Við höfum verið að fá gríðarlegar verðhækkanir til okkar frá framleiðendum hér heima og birgjum, margar teljum við óþarfar og að okkar mati hefur verið of auðvelt fyrir þessa aðila að velta öllum hækkunum út í verðið. Það skrifast á litla samkeppni, sterka stöðu fárra stórra birgja og verndartolla á íslenskri framleiðslu, t.a.m. á mjólk og kjöti,” segir Gunnar Egill Sigurðsson, forstjóri Samkaupa, í tilkynningu til fjölmiðla.

Gunnar Egill kveðst fagna þeim fyrirtækjum sem hafa tekið af skarið og fryst eða lækkað verð að undanförnu. Hann kallar þó eftir því að hið opinberlega sýni líka frumkvæði. Bendir hann til dæmis óbreyttar álögur á eldsneyti, að ekki sé afnuminn virðisauki á lykildagvöru, til að mynda á bleium og barnamat til að koma til móts við ungar barnafjölskyldur.