Innlent

Samkaup kaupir allar verslanir Iceland

Samkaup mun eignast rekstur allra sjö verslana Iceland á landinu, fimm verslana 10-11 í Reykjavík og beggja verslana Háskólabúðarinnar ef Samkeppniseftirlitið leggur blessun sína yfir kaupin.

Matvöruverslanir Iceland eru sjö talsins. Fréttablaðið/Pjetur

Smásölukeðjan Samkaup hyggst kaupa af Basko rekstur allra sjö verslana Iceland á landinu, fimm verslana 10-11 miðsvæðis í Reykjavík og beggja verslana Háskólabúðarinnar. Þetta kemur fram í samrunatilkynningu sem Samkaup sendi Samkeppniseftirlitinu í lok síðasta mánaðar og birt var á vef eftirlitsins í dag.

Ef kaup Samkaupa á umræddum verslunum Basko ganga í gegn - en þau eru háð samþykki Samkeppniseftirlitsins - mun síðarnefnda félagið áfram reka átján verslanir undir nafninu 10-11 auk verslunarinnar Kvosarinnar, verslunar Inspired by Iceland og veitingastaðarins Bad Boys Burgers & Grill.

Fulltrúar Samkaupa og Basko skrifuðu undir samning um kaup Samkaupa á fjórtán verslunum Basko 12. júní síðastliðinn. Er kaupverðið trúnaðarmál. Samkeppniseftirlitið hefur kaupin til rannsóknar en eftirlitið óskaði í dag eftir sjónarmiðum almennings og fyrirtækja um áhrif kaupanna á samkeppni.

Samkvæmt kaupsamningnum mun Samkaup eignast allar sjö verslanir Iceland á landinu, verslanir 10-11 við Lágmúla, Hjarðarhaga, Laugalæk, Borgartún og í Grímsbæ í Reykjavík og báðar verslanir Háskólabúðarinnar við Eggertsgötu og í Háskólanum í Reykjavík.

Í samrunatilkynningu Samkaupa segir að markmið kaupanna sé að styrkja stöðu smásölukeðjunnar á dagvörumarkaði og þá sérstaklega á höfuðborgarsvæðinu. Hingað til hefur innan við þriðjungur af veltu Samkaupa komið af höfuðborgarsvæðinu.

Samkaup mun eignast fimm verslanir 10-11 ef Samkeppniseftirlitið samþykkir kaupin óbreytt. Fréttablaðið/GVA

Bent er á að á höfuðborgarsvæðinu ráði tvö fyrirtæki um 70 til 80 prósent af markaðinum og næstu fyrirtæki þar á eftir séu með 5 til 10 prósenta hlutdeild. „Með tilliti til þess hvernig skipting íbúa milli landsbyggðar og höfuðborgar er og hvernig spár um íbúaþróun eru, er brýnt fyrir Samkaup að styrkja stöðu sína á höfuðborgarsvæðinu. Einnig er brýnt út frá því hvernig hlutdeild skiptist í dag milli aðila á höfuðborgarsvæðinu að þeim tveimur stóru sem ráða markaðinum sé veitt aðhald,“ segir í samrunatilkynningunni.

Einnig er tekið fram að kaupin gefi möguleika á samlegðaráhrifum sem felast í hlutfallslega lægri stjórnunarkostnaði og hagkvæmari innkaupum.

Samkaup er þriðja stærsta smásölukeðja landsins en félagið rekur 48 smávöruverslanir undir nöfnunum Nettó, Kjörbúðin, Krambúð, Samkaup Strax og Seljakjör á 33 stöðum víðs vegar um landið. Fram kemur í samrunatilkynningunni að velta Samkaupa hafi numið 25.570 milljónum króna í fyrra. Til samanburðar var velta Basko verslana 9.528 milljónir króna á síðasta ári.

Athugasemdir

Auglýsing
Auglýsing

Tengdar fréttir

Innlent

Stjórn Klakka telur skil­yrði um rann­sókn ekki upp­fyllt

Innlent

Ólögleg smálán valdi mestum vanda

Innlent

Gefur Kviku sama frest til að hætta við kaup á GAMMA

Auglýsing

Nýjast

Ármann: „Höfum ekkert með stjórn GAMMA að gera“

Tíu prósenta fækkun flugsæta í sumar

Taka 4 millj­arð­a úr Kvik­u láti þeir ekki af „grimmd­ar­­verk­um“

Skúli hafnar sögusögnum og segir viðræður ganga vel

Icelandair hækkar í fyrstu viðskiptum

Pálmi í hópi stærstu fjárfesta í Icelandair

Auglýsing