Kísilverið PCC á Bakka við Húsavík hefur gengið frá samkomulagi um fjárhagslega endurskipulagningu við lánveitendur og hluthafa félagsins, sem eru meðal annars íslenskir lífeyrissjóðir og Íslandsbanki í gegnum samlagshlutafélagið Bakkastakk, í því skyni að bæta bágborna lausafjárstöðu þess.

Samkvæmt samkomulaginu, sem var skrifað undir í byrjun síðustu viku, er kísilverinu veittur frestur á greiðslu vaxta og afborgana og þá mun þýska fyrirtækið PCC SE, sem á 86,5 prósenta hlut á móti 13,5 prósenta hlut Bakkastakks, leggja fram 40 milljónir Bandaríkjadala, jafnvirði 5,6 milljarða króna, í reksturinn í formi hluthafaláns, samkvæmt heimildum Markaðarins.

Aðallánveitandi PCC á Bakka er þýski bankinn KfW-IPEX og þá veitti Bakkastakkur, sem er einkum í eigu Íslandsbanka og Gildis, Birtu og Stapa, félaginu víkjandi breytanlegt skuldabréfalán að fjárhæð 62,5 milljónir dala. Skuldabréfið, sem var bókfært á 9,5 milljarða í árslok 2018 í reikningum Bakkastakks, ber 8,5 prósenta vexti. Miðað við það nema árlegar vaxtagreiðslur af bréfinu um 800 milljónum. Samtals nemur fjárfesting Bakkastakks í kísilverinu, bæði í forgangshlutafé og breytanlegu skuldabréfi, jafnvirði um tíu milljarða.

Miklar tafir og erfiðar aðstæður á hrávörumörkuðum hafa einkennt starfsemi kísilversins en það var formlega gangsett í maí 2018. Þá hafa vandræði í hreinsivirki verksmiðjunnar valdið því að slökkva hefur þurft á ljósbogaofnum.