Norðurál og Samherji hafa undirritað viljayfirlýsingu um kaup Samherja á lóð og byggingum Norðuráls við Helguvík, samkvæmt heimildum Markaðarins. Áætlanir Samherja snúa að því að hefja laxeldi á landi og nýta til þess byggingar í Helguvík, sem upprunalega var ætlað að hýsa álver Norðuráls.

Samherji hefur þegar hafið frumathugun á aðstæðum til laxeldis í Helguvík, en niðurstöður þeirrar athugunar munu líklegast liggja fyrir áður en árið er úti. Byggingar Norðuráls við Helguvík eru alls 23 þúsund fermetrar og lóðin er um 100 hektarar. Kaupverð liggur ekki fyrir. Norðurál hefur þegar sótt um leyfi til Reykjanesbæjar til að stunda aðra starfsemi en álframleiðslu á svæðinu, en slíkt leyfi hefur ekki verið veitt sem stendur.

Samherji starfrækir þegar fiskeldi á Suðurnesjum. Fyrirtækið rekur tvær áframeldisstöðvar bleikju skammt frá Grindavík og á Vatnsleysuströnd. Þar að auki rekur Samherji vinnslu í Sandgerði, þar sem bleikju er slátrað og pakkað í neytendaumbúðir.

Ætla má að uppbygging laxeldis við Helguvík falli því harla vel að núverandi starfsemi fyrirtækisins á Suðurnesjum. Samherji stundar þegar laxeldi á landi að Núpsmýri í Öxarfirði.

Samkvæmt upplýsingum á vefsíðu Samherja framleiðir fyrirtækið um 1.500 tonn af eldislaxi á ári, sem gerir Samherja að einum stærsta landeldisframleiðanda á laxi í heiminum.

Gangi þessar áætlanir eftir má teljast algjörlega öruggt að álver muni ekki rísa við Helguvík, þó segja megi að öll rök hafi að vísu hnigið að þeirri niðurstöðu um skeið. Aldrei tókst að útvega næga raforku til að hleypa álverinu af stokkunum.

Fyrsta skóflustunga fyrirhugaðs álvers var tekin um mitt ár 2008. Gangsetning var fyrirhuguð árið 2010 og framleiðslugeta átti að vera allt að 360 þúsund tonn á ári, en til þess að starfrækja álver af þeirri stærðargráðu hefði þurft allt að 600 megavött af uppsettu afli. Möguleikanum á byggingu álversins var þó haldið uppi á borðum í orði allt til ársins 2016.

Um mitt ár 2016 úrskurðaði síðan gerðardómur að raforkusamningur HS Orku og Century Aluminum, eiganda Norðuráls, vegna fyrirhugaðs álvers í Helguvík væri ekki lengur gildur.