For­svars­menn Sam­herja hafa birt að nýju nafn­lausa til­kynningu á vef­síðu sinni þar sem frétta­maðurinn Helgi Seljan er sakaður um í­trekuð ó­sannindi. Er þar birt skjá­skot af Face­book færslu hans þar sem hann svarar annarri færslu af vef Sam­herja, þar sem hann og RÚV eru sökuð um upp­spuna.

Helgi hafði haldið því fram að þúsundir starfa hefðu tapast í namibískum sjávar­út­vegi vegna Sam­herja. Hann var þá sakaður um upp­spuna og sagði hann í kjöl­farið greini­legt að Björg­ólfur Jóhanns­son, starfandi for­stjóri Sam­herja, erfitt með að höndla ein­faldar stað­reyndir.

Í til­kynningunni á vef Sam­herja er Helgi sakaður um að endur­taka rangar full­yrðingar sínar um störfin í Namibíu. Hann hafi því endur­flutt sömu ó­sannindi og fyrir­tækið segir sig hafa leið­rétt í gær.

„Fyrst skal á­réttað að engin störf glötuðust í namibískum sjávar­út­vegi eftir breytingar á út­hlutun afla­heimilda í hrossamakríl heldur fluttust störfin milli fyrir­tækja og skipa. Þá er mikil­vægt að halda því til haga að fyrir­tækið Nam­sov var lengst af ekki í eigu Namibíu­manna heldur var það í eigu suður-afrísku sam­steypunnar Bid­vest Group sem er metið á 8,4 milljarða dollara og er númer 1.062 á lista banda­ríska tíma­ritsins For­bes yfir 2.000 stærstu fyrir­tæki heims.“

Full­yrt er í til­kynningu Sam­herja að það séu störfin sem heima­menn eigi að hafa glatað. Tekið er fram að til ársins 2012 hafi upp­sjávar­veiðar í Namibíu verið nær ein­göngu í höndum tveggja fyrir­tækja, Nam­sov og Ern­go, sem lengst af hafi bæði verið í eigu Suður-Afríku­manna.

Hlutur heima­manna í namibískum sjávar­út­vegi hafi fyrsta aukist eftir að breytingar urðu á reglum um út­hlutun á árunum 2011-2012, þegar afla­heimildir hafi verið teknar frá gömlu suður-afrísku fyrir­tækjunum. Segir að það hafi verið eftir að fé­lög tengd Sam­herja og fleiri er­lend út­gerðar­fyrir­tæki hófu starf­semi í namibískum sjávar­út­vegi.

„Að þessu virtu er það ekki boð­legur mál­flutningur hjá Helga Seljan að flytja í­trekað þau ó­sannindi að Namibíu­menn hafi glatað störfum í namibískum sjávar­út­vegi eftir að fé­lög tengd Sam­herja hófu starf­semi í landinu.“