Forsvarsmenn Samherja hafa birt að nýju nafnlausa tilkynningu á vefsíðu sinni þar sem fréttamaðurinn Helgi Seljan er sakaður um ítrekuð ósannindi. Er þar birt skjáskot af Facebook færslu hans þar sem hann svarar annarri færslu af vef Samherja, þar sem hann og RÚV eru sökuð um uppspuna.
Helgi hafði haldið því fram að þúsundir starfa hefðu tapast í namibískum sjávarútvegi vegna Samherja. Hann var þá sakaður um uppspuna og sagði hann í kjölfarið greinilegt að Björgólfur Jóhannsson, starfandi forstjóri Samherja, erfitt með að höndla einfaldar staðreyndir.
Í tilkynningunni á vef Samherja er Helgi sakaður um að endurtaka rangar fullyrðingar sínar um störfin í Namibíu. Hann hafi því endurflutt sömu ósannindi og fyrirtækið segir sig hafa leiðrétt í gær.
„Fyrst skal áréttað að engin störf glötuðust í namibískum sjávarútvegi eftir breytingar á úthlutun aflaheimilda í hrossamakríl heldur fluttust störfin milli fyrirtækja og skipa. Þá er mikilvægt að halda því til haga að fyrirtækið Namsov var lengst af ekki í eigu Namibíumanna heldur var það í eigu suður-afrísku samsteypunnar Bidvest Group sem er metið á 8,4 milljarða dollara og er númer 1.062 á lista bandaríska tímaritsins Forbes yfir 2.000 stærstu fyrirtæki heims.“
Fullyrt er í tilkynningu Samherja að það séu störfin sem heimamenn eigi að hafa glatað. Tekið er fram að til ársins 2012 hafi uppsjávarveiðar í Namibíu verið nær eingöngu í höndum tveggja fyrirtækja, Namsov og Erngo, sem lengst af hafi bæði verið í eigu Suður-Afríkumanna.
Hlutur heimamanna í namibískum sjávarútvegi hafi fyrsta aukist eftir að breytingar urðu á reglum um úthlutun á árunum 2011-2012, þegar aflaheimildir hafi verið teknar frá gömlu suður-afrísku fyrirtækjunum. Segir að það hafi verið eftir að félög tengd Samherja og fleiri erlend útgerðarfyrirtæki hófu starfsemi í namibískum sjávarútvegi.
„Að þessu virtu er það ekki boðlegur málflutningur hjá Helga Seljan að flytja ítrekað þau ósannindi að Namibíumenn hafi glatað störfum í namibískum sjávarútvegi eftir að félög tengd Samherja hófu starfsemi í landinu.“