Samherji Holding, stærsti hluthafi Eimskips, hefur minnkað við hlut sinn í félaginu og selt sem nemur um 1,4 prósenta hlut. Eignarhlutur Samherja í Eimskip er nú tæplega 32,8 prósent en var fyrir söluna um 34,2 prósent. Þetta kemur fram í frétt Innherja.

Samkvæmt heimildum Innherja seldi Samherji bréfin, samanlagt um 2,5 milljónir hluta að nafnverði, í síðari hluta nóvembermánaðar. Ætla má að sjávarútvegsrisinn hafi fengið liðlega 1,2 milljarða króna fyrir hlutinn en gengi bréfa Eimskips hefur verið um eða undir 500 krónur á hlut á síðustu vikum.

Hlutabréfaverð Eimskips hefur hækkað um meira en 80 prósent á árinu og nemur markaðsvirði félagsins um 82 milljörðum króna. Á síðustu viku hefur gengi bréfa félagsins hins vegar lækkað um meira en sex prósent og stendur núna í 466 krónum á hlut.