Samherji Holding mun gera yfirtökutilboð í Eimskip eins og lög áskilja. Ekki er stefnt að því að skrá skipafélagið af markaði. Þetta var tilkynnt til Kauphallarinnar eftir að kjölfestufjárfestirinn jók hlut sinn í 30,3 prósent úr 29,9 prósentum. Yfirtökuskylda myndast þegar einstaka hluthafi eignast meira en 30 prósent í skráðu fyrirtæki á Aðallista Kauphallarinnar.

Þetta er ekki í fyrsta skipti sem eignarhlutur Samherja Holding á Eimskip bakar félaginu yfirtökuskyldu. Það gerðist hinn 10. mars síðastliðinn. Þann dag var flaggað að Samherji Holding hefði aukið hlut sinn í Eimskip um 3,1 prósent og ætti 30,1 prósent hlut í fyrirtækinu eftir kaupin.

Samherji Holding óskaði síðan eftir undanþágu frá tilboðsskyldu vegna þeirra sérstöku og óvenjulegu aðstæðna sem voru uppi í þjóðfélaginu vegna útbreiðslu COVID-19 og þeirrar röskunar sem faraldurinn hafði fyrir íslenskt efnahagslíf á þeim tíma. Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands veitti Samherja Holding slíka undanþágu hinn 31. mars síðastliðinn og seldi Samherji Holding hlutabréf í Eimskip samdægurs þannig að hlutafjáreign félagsins í Eimskip fór niður fyrir 30 prósent.

Tilgangur Samherja Holding með hlutafjárkaupunum í dag er fyrst og fremst að ljúka tilboðsskyldu sinni gagnvart öðrum hluthöfum sem undanþága fékkst fyrir í mars síðastliðnum. Kaupin endurspegla þá trú sem stjórnendur Samherja Holding hafa á rekstri Eimskips. Starfsfólk félagsins um allan heim hefur verið mjög samhent í þeirri umfangsmiklu endurskipulagningu sem fram hefur farið að undaförnu. „Með svo samhentan hóp að verki er það trú okkar að batnandi afkoma eigi eftir að koma enn betur í ljós á næstu misserum,“ segir í tilkynningu.

Eimskip er í meirihlutaeigu íslenskra lífeyrissjóða sem saman fara með rúmlega helming hlutafjár. Samherji Holding telur Eimskip vel til þess fallið að vera áfram skráð á almennan hlutabréfamarkað og stjórnendur Samherja Holding binda vonir við að eiga áfram gott samstarf við aðra hluthafa Eimskips.