Landeldisstöð Samherja í Öxarfirði mun tvöfaldast með þrjú þúsund tonna framleiðslugetu.

Félagið hefur keypt lóð undir verkefnið en einnig nærliggjandi jör, Akursel, þar sem verður skógrækt og landgræðsla til að kolefnisjafna starfið. Áætlaður kostnaður er um einn og hálfur milljarður og eru skipulagsmál á lokastigi að því er fram kemur í tilkynningu á vef félagsins.

Jón Kjartan Jónsson framkvæmdastjóri Samherja segir kerin undir landeldið vera fimm sinnum stærri en þau sem eru notuð núna. Eru þetta stærstu ker sem til eru undir slíka framleiðslu. Áður en aukin framleiðsla getur hafist verður að auka sjótöku, byggja hreinsimannvirki, stoðkerfi og koma fyrir ýmsum tækjabúnaði en undirbúningsvinnu er að mestu lokið.

Tvöfalda allt fiskeldi á Íslandi

Samherji og HS Orka hafa undirrituðu síðasta janúar samninga um uppbyggingu landeldis á laxi í Auðlindagarð Reykjanesvirkjunar. Heildarfjárfesting vegna verkefnisins er áætluð 45 milljarðar króna. Stjórn Samherja hf samþykkti að leggja landeldisverkefninu til 7,5 milljarða króna til þess að tryggja uppbyggingu fyrsta stigs verkefnisins.

Jón Kjartan segir félagið áforma að byggja allt að 40 þúsund tonna landeldi á laxi á Reykjanesi á næstu árum og að stækkunin í Öxarfirði tengist þeim áformum. Magn slátraðs eldisfisks hefur áttfaldast á síðustu tíu árum og var tæplega 40,6 þúsund tonn árið 2020 samkvæmt mælaborði fiskeldis sem finna má á vef Matvælastofnunar, eftirlitsaðila fiskeldis á Íslandi. Þá mætti segja að Samherji sé að tvöfalda alla fiskeldis framleiðslu á Íslandi og stefnir á að gera það á þurru landi.

„Það má segja að stækkunin fyrir norðan sé á vissan hátt undanfari þessa stóra verkefnis okkar á Reykjanesi. Við ætlum að prófa nýja hluti og í stærri einingum en áður og nýta þá reynslu við hönnun og rekstur á nýju stöðinni,“ segir Jón Kjartan.

Tölvugerð mynd af áformuðu landeldi á Reykjanesi.

Landeldi framtíðin?

Ragnar Jóhannsson, sviðsstjóri fiskeldis- og fiskiræktarsviðs Hafrannsóknarstofnunar, hefur áður fullyrt að Ísland sé með besta landsvæði í heimi fyrir landeldi. Hér séu vatnsmiklar borholur og hreint vatn án smitefna og hægt væri að stjórna jöfnu hitastigi í kvíum allt árið. Hann telur að landeldi muni aukast til muna í framtíðinni.

Fiskeldi í sjó, svokallað sjókvíaeldi, hefur verið gagnrýnt mikið bæði af dýraverndarsinnum og veiðimönnum sem hafa áhyggjur af velferð fiskanna og mögulega blöndun eldislaxa við villtan íslenskan lax. Myndir sem hafa birst af stórslösuðum eldislöxum í sjókvíum hafa vakið óhug og skapað umræður um dýravelferð í fiskeldi á Íslandi.

Þá mætti segja að sannkallað gullgrafaraæði sé á Íslandi í þessum málum. „Íslenskt fiskeldi er komið til að vera,“ sagði Kristján Þór Júlíusson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, á ársfundi Samtaka fyrirtækja í Sjávarútvegi í Hörpu í apríl 2019. Var þá ráðgert að um 45 þúsund tonn af eldislaxi yrðu framleidd á árinu 2021 en miðað við tölurnar í fyrra er það alls ekki ólíklegt.

Slík útflutningsverðmæti yrðu svipuð og samanlögð útflutningsverðmæti loðnu, kolmunna og makríls árið 2017.