Samherji hefur keypt helmingshlut í Aquanor Marketing Inc, en fyrirtækið sérhæfir sig í innflutningi, dreifingu og sölu sjávarafurða í Bandaríkjunum. Aquanor hefur höfuðstöðvar sínar í Boston í Bandaríkjunum. Frá þessu er greint á heimasíðu Samherja.

Samherji og Aquanor hafa átt í samstarfi í 10 ár. Aquanor sérhæfir sig í sölu sjávarafurða til smásölukeðja, veitingahúsakeðja og heildsala í Bandaríkjunum. Fyrirtækið sérhæfir sig í tegundum frá Norður-Atlantshafinu, svo sem bleikju, þorsk, ýsu, lax og ostrum. Með kaupum Samherja á helmingshlut í fyrirtækinu verður sjónum frekar beint að markaðssetningu á frosnum þorski og bleikju. "Framleiðsla á bleikju hefur aukist verulega á Íslandi á undanförnum árum og Samherji fiskeldi er nú stærsti einstaki bleikjuframleiðandi í heimi. Gert er ráð fyrir að framleiðsla á bleikju muni koma til með að aukast enn frekar á næstunni. Aquanor, sem er leiðandi í markaðssetningu á bleikju vestanhafs, mun nú koma til með að bjóða upp á ýmsar frosnar bleikjuafurðir til að mæta eftirspurn viðskiptavina sinna," segir í tilkynningu Samherja.

Viðræður um kaup Samherja á hlutnum í Aquanor eru sagðar hafa staðið yfir um nokkurra mánaða skeið og samkomulag náðist fyrr í þessum mánuði. Núverandi forstjóri Aquanor, Eric Kaiser, mun áfram gegna starfinu. "Við höfum unnið með Samherja í yfir tíu ár og á þeim tíma höfum við hrifist af því hvernig þeir reka sitt fyrirtæki. Þorsteinn Már hefur ásamt öllu stjórnendateyminu tekist að skapa starfsanda sem stuðlar að góðum félagsskap, virðingu og alúð á öllum stigum í rekstri fyrirtækisins," segir Eric Kaiser í tilkynningunni.

„Aquanor Marketing er vel rekið fjölskyldufyrirtæki og eigendur þess deila gildum okkar og framtíðarsýn. Þessi fjárfesting mun gera okkur kleift að halda áfram að vaxa í Bandaríkjunum. Um er að ræða mikilvægan markað fyrir okkur sem verður enn mikilvægari í framtíðinni vegna þeirra breytinga sem hafa orðið á eftirspurn í kjölfar heimsfaraldursins. Þrátt fyrir þessar erfiðu kringumstæður hlökkum við til áframhaldandi vaxtar og uppbyggingar Aquanor á þeim trausta grunni sem samstarf fyrirtækjanna hefur mótað,“ segir Þorsteinn Már Baldvinsson, forstjóri Samherja.