Lögmaður Samherja hefur lagt fram kæru fyrir siðanefnd Ríkisútvarpsins á hendur ellefu nafngreindum frétta- og dagskrárgerðarmönnum vegna þátttöku þeirra í þjóðfélagsumræðu um málefni Samherja á samfélagsmiðlum. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinuá vef þess.

Meðal þeirra starfsmanna sem Samherji kærir eru fréttamaðurinn Helgi Seljan. Líkt og Fréttablaðið hefur greint frá hafa forsvarsmenn Kveiks, RÚV og Helgi Seljan sjálfur hafnað öllum ásökunum Samherja um óeðlileg vinnubrögð í tengslum við gerð Kastljósþáttar árið 2012.

Þá hafa Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri RÚV, Stefán Eiríksson útvarpsstjóri og Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri Kveiks, hafnað með öllu málatilbúnaði Samherja.

Í fyrsta Youtube þætti sínum sakaði Samherji fréttamanninn um að hafa falsað skýrslu Verðlagsstofu um karfaútflutning árin 2010 og 2011 sem fjallað var um í Kastljósi árið 2012. Því var hafnað og staðfesti Verðlagsstofa svo að gögnin hefðu komið frá stofnuninni .Fullyrtu forsvarsmenn Samherja að frekar væri um að ræða vinnuskjal heldur en skýrslu.

Á vef Samherja er fullyrt að umrædd kæra byggi á á ótvíræðri reglu í siðareglum Ríkisútvarpsins sem sé svohljóðandi: „Starfsfólk, sem sinnir umfjöllun um fréttir, fréttatengt efni og dagskrárgerð tekur ekki opinberlega afstöðu í umræðu um pólitísk málefni eða umdeild mál í þjóðfélagsumræðunni, þ. á m. á samfélagsmiðlum.“

Þá segir þar ennfremur að öll þau tilvik sem fjallað sé um í kærunni varði starfsfólk RÚV sem vinni fréttir, fréttatengd efni og dagskrárgerð.

Þeir starfsmenn sem Samherji hefur kært eru ásamt Helga Seljan: Rakel Þorbergsdóttir, fréttastjóri RÚV, Þóra Arnórsdóttir, ritstjóri Kveiks, fréttamennirnir Aðalsteinn Kjartansson, Freyr Gígja Gunnarsson, Lára Ómarsdóttir, Snærós Sindradóttir, Stígur Helgason, Sunna Valgerðardóttir, Tryggvi Aðalbjörnsson og Sigmar Guðmundsson, dagskrárgerðarmaður.

„Samantekin ráð“

Í kærunni, sem Samherji birtir á vef sínum, eru tiltekin atriði þar sem fyrirtækinu þykir fréttamennirnir hafa gerst brotlegir við siðareglurnar, með færslum sem birtar voru á þeirra eigin samfélagsmiðlum.

„Í færslum þeim, sem starfsmennirnir birtu á samfélagsmiðlum og fjallað er um í kærunni, tóku þeir afstöðu í umræðu um málefni Samherja. Er þar einkum um að ræða mál vegna ásakana sem settar voru fram vegna starfseminnar í Namibíu og hið svokallaða Seðlabankamál en einnig ýmis önnur mál sem tengjast Samherja með beinum og óbeinum hætti. Má þar nefna eignarhald fyrirtækja í sjávarútvegi og eignarhald á hlutabréfum í Eimskip.“

Segir í tilkynningu Samherja að ljóst megi vera með ummælum sínum að umræddir starfsmenn RÚV hafi gerst brotlegir við siðareglur. „Þá virðist sem um sé að ræða samantekin ráð þar sem margar þeirra færslna, sem fjallað er um í kærunni, voru birtar á samfélagsmiðlum því sem næst samtímis. Gerir það brotin enn alvarlegri. Í kærunni er þess krafist að horft verði sérstaklega til þess að sumir fréttamannanna brjóta siðareglurnar ítrekað.“

„Þarna er um margítrekuð brot að ræða hjá sumum þeirra einstaklinga sem eiga í hlut. Þá virðist hópur manna, sem starfa við fréttir og dagskrárgerð, hafa haft samantekin ráð um að skaða orðspor Samherja. Af þessu er augljóst á Samherji á engan möguleika á því að fá hlutlausa umfjöllun hjá Ríkisútvarpinu,“ hefur Samherji eftir Þorsteini Má Baldvinssyni, forstjóri Samherja.

Fréttin hefur verið uppfærð.