For­svars­menn Sam­herja hafna full­yrðingum namibíska frétta­miðilsins The Namibian um að togarinn Heina­ste, sem er í eigu Esju Holding, hafi verið gerður upp­tækur. Þetta kemur fram í til­kynningu sem send hefur verið Frétta­blaðinu, þar sem frétta­flutningnum er hafnað eins og áður segir.

Í fréttinni sem vísað er til er full­yrt er að togarinn hafi verið gerður upp­tækur þann 22. nóvember síðast­liðinn. Tals­maður namibísku lög­reglunnar er sagður hafa stað­fest þetta við miðilinn í síðustu viku. Full­yrt var að Heina­ste hefði verið stöðvaður þar sem hann var talinn vera við veiðar á bann­svæði.

Í til­kynningu Sam­herja vegna fréttarinnar segir að hið rétta í málinu sé, að togarinn hafi verið kyrr­settur af namibískum stjórn­völdum þann 29. nóvember síðast­liðinn, í tenglum við ætluð brot vegna veiða innan lokaðs svæðis. „Þessar á­sakanir eru ó­tengdar þeim sem settar hafa verið fram á hendur Sam­herja vegna starf­seminnar í Namibíu,“ segir í til­kynningunni.

„Lög­menn í Namibíu hafa full­vissað okkur um að enginn grund­völlur sé fyrir á­sökunum um að Heina­ste hafi veitt innan lokaðs svæðis. Unnið er að því að af­létta kyrr­setningu skipsins og er næsta fyrir­taka í málinu næst­komandi mið­viku­dag,“ segir enn fremur.

Þá segir í til­kynningu Sam­herja að rang­lega sé full­yrt í frétt The Namibian að Heina­ste hafi verið af­skráð og sé án ríkis­fangs. „Hið rétta er að skipið hefur verið skráð í Belize og siglir því ekki lengur undir fána Namibíu. Á­stæða breyttrar skráningar er sú að skipið er í sölu­ferli og breytt skráning er til að liðka fyrir sölu skipsins.“