Samherji hefur selt um þriggja prósenta hlut í Eimskip og á nú 27 prósenta hlut. Fyrir skemmstu jók útgerðin hlut sinn í skipafélaginu um þrjú prósent og eignaðist við það rúmlega 30 prósenta hlut. Við það myndaðist yfirtökuskylda á Eimskip.

Þegar Samherji bætti við hlut sinn hinn 10. mars var ekki hugmyndin að yfirtaka félagið heldur að sýna þá trú sem útgerðin hefur á skipafélaginu.

„Samherji telur Eimskip vel til þess fallið að vera áfram skráð í kauphöll og vonar að sem flestir hluthafar, stórir og smáir, sjái hag sínum best borgið með því að styðja áfram við þá uppbyggingu og fylgi félaginu um ókomin á,“ sagði Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Samherja við það tækifæri.

Á föstudaginn óskaði Samherji eftir því við fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands að það fengi undanþágu frá yfirtökuskyldu vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem hefðu skapast á fjármálamarkaði vegna útbreiðslu kórónaveirunnar. Í lögum um verðbréfaviðskipti er fjármálaeftirlitinu veitt heimild til að veita slíka undanþágu ef sérstakar ástæður mæla með því.