Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands hefur ákveðið að veita Samherja undanþágu frá tilboðsskyldu í Eimskipafélagi Íslands, eftir því sem fram kemur í tilkynningu frá útgerðarrisanum.

Fjármálaeftirlitinu er lögum samkvæmt heimilt að veita undanþágu frá yfirtökuskyldu ef sérstakar ástæður mæla með því.

Í tilkynningu Samherja er tekið fram að eftirlitið telji að skilyrði undanþágunnar séu uppfyllt í ljósi þeirra aðstæðna sem ríki á fjármálamarkaði vegna útbreiðslu kórónaveirunnar.

Fjármálaeftirlitið telur, eftir því sem fram kemur í tilkynningu Samherja, að verndarhagsmunir yfirtökureglna laganna séu tryggðir og að með veitingu undanþágu frá tilboðsskyldu sé, eins og atvikum málsins er háttað, ekki gengið á minnihlutavernd annarra hluthafa.

Að endingu vekur fjármálaeftirlitið athygli á því að Samherja sé ekki heimilt að leggja fram yfirtökutilboð í sex mánuði frá því að félagið lýsti því yfir að það hygðist ekki gera yfirtökutilboð.

„Það eru mjög sérstakar og óvenjulegar aðstæður á fjármálamarkaði. Við töldum því ekki skynsamlegt að tilboð um yfirtöku færi fram í skugga þessa umróts en við vonum að aðstæður verði heppilegri síðar. Eins og við höfum sagt áður þá hefur trú okkar á framtíð Eimskips ekkert breyst,“ segir Björgólfur Jóhannsson, forstjóri Samherja Holding, í tilkynningunni.

Samherji Holding, systurfélag Samherja, jók fyrr í mánuðinum, þann 10. mars, hlut sinn í Eimskip um þrjú prósent og eignaðist við það rúmlega þrjátíu prósenta hlut í skipafélaginu. Við það myndaðist yfirtökuskylda í félaginu. Haft var eftir Björgólfi við það tilefni að Samherji teldi skipafélagið vel til þess fallið að vera áfram skráð í kauphöll og vonaði að sem flestir hluthafar, stórir og smáir, sæju hag sínum best borgið með því að fylgja félaginu áfram.

Síðar í mánuðinum óskaði útgerðarfélagið eftir því við fjármálaeftirlit Seðlabankans að það fengi undanþágu frá yfirtökuskyldu vegna þeirra sérstöku aðstæðna sem hefðu skapast á fjármálamarkaði vegna útbreiðslu kórónaveirunnar. Fáeinum dögum síðar seldi Samherji svo um þriggja prósenta hlut í Eimskip og fór þannig aftur undir yfirtökumörkin. Seðlabankinn hefur nú fallist á undanþágubeiðnina eins og áður sagði.