For­svars­menn Sam­herja hafna full­yrðingum sem birtust í Kveik á þriðju­daginn var um eignar­hald fé­lagsins á fé­laginu Cape Cod og JPC Ship­mana­gement, í nýrri til­kynningu frá fé­laginu.

Fram kom í Kveik á þriðju­daginn að meira en níu milljarðar hafi farið í gegnum reikninga JPC Ship­mana­­gement og Cape Cod Fs hjá norska bankanum DNB á árunum 2010 til 2018 en fé­lögin eru bæði tengd Sam­herja. Við­­brögð bankans hafa nú verið harð­­lega gagn­rýnd.

Í til­kynningu frá Sam­herja segir að full­yrðingar RÚV og Stundarinnar vegna eignar­halds Sam­herja séu rangar. Ekkert í rann­sókn norsku lög­manns­stofunnar Wik­borg Rein, sem Sam­herji réði, bendi til hins gagn­stæða.

„Sam­herji á ekki og hefur aldrei átt Cape Cod FS og hefur aldrei falið öðrum að „leppa“ eignar­haldið á fé­laginu,“ segir orð­rétt í til­kynningu frá fyrir­tækinu.

Full­yrt er að RÚV og Stundin hafi rang­lega haldið því fram að sjö­tíu milljón dollarar hafi farið í gegnum Cape Cod FS vegna starf­seminnar í Namibíu. Segir að hið rétta sé að 28,9 milljónir dollarar hafi verið greiddar til fé­lagsins vegna starf­seminnar í Namibíu.

„Í ís­lenskum fjöl­miðlum hefur verið full­yrt að greiðslurnar í gegnum Cape Cod FS séu ó­út­skýrðar og ó­eðli­legar. Þetta er al­rangt. Í Namibíu eru gjald­eyris­höft við lýði. Til þess að fram­kvæma greiðslur út úr namibísku hag­kerfi þurfa að fylgja marg­vís­leg gögn til að sann­reyna greiðsluna vegna haftanna.

Af þessari á­stæðu þarf að senda upp­lýsingar um greiðslur til hvers og eins á­hafnar­með­lims á­samt af­riti af vega­bréfi hans til namibísks við­skipta­banka sem á­fram­sendir upp­lýsingarnar til Seðla­banka Namibíu. Til þess að tryggja að allir á­hafnar­með­limir fengju réttar fjár­hæðir greiddar í sam­ræmi við verk­samninga voru greiðslurnar yfir­farnar af bæði Cape Cod FS og af starfs­manni fé­lags sem tengdist Sam­herja áður en þær voru inntar af hendi.“

Segir að þær fjár­hæðir sem fóru í gegnum Cape Cod FS hafi verið yfir­farnar. Rann­sókn hafi leitt í ljós að greiðslurnar hafi verið í sam­ræmi við það sem tíðkaðist á markaði. Um hafi verið að ræða um­fangs­mikla út­gerð og því ekkert ó­eðli­legt við þær fjár­hæðir sem fóru í gegnum fé­lagið vegna greiðlsna til skip­verja yfir langt tíma­bil.

„Þær á­sakanir sem settar hafa verið fram um eignar­haldið á Cape Cod og greiðslur til fé­lagsins eru rangar. Haldið verður á­fram að rann­saka málið og veita hlutað­eig­andi stjórn­völdum allar upp­lýsingar,“ segir Björg­ólfur Jóhanns­son, starfandi for­stjóri Sam­herja. Fram kemur í tilkynningunni að þess sé vænst að Stundin, Ríkis­út­varpið og eftir at­vikum aðrir fjöl­miðlar leið­rétti rangan frétta­flutning um málið.