Garðar G. Gísla­son, lög­maður sjávarútvegsfyrirtækisins Sam­herja, segir að um­mæli Katrínar Jakobs­dóttur um niður­stöðu Hæsta­réttar í kvöld­fréttum RÚV hafi komið sér á ó­vart. Hæsti­réttur hafði þá stað­fest niður­stöðu úr héraði um að Seðla­banka Ís­lands hafi ekki verið heimilt að beita stjórn­valds­sekt á Sam­herja árið 2016 vegna meintra brota á lögum um gjald­eyris­við­skipti. 

„Lést þú þau orð falla í við­talinu að dómurinn væri „ekki góður fyrir Seðla­bankann“ sem tapað hafi málinu „fyrst og fremst vegna forms­at­riða“ [...] Ég hef sem lög­maður gætt hags­muna Sam­herja hf. í fyrr­greindum mála­rekstri. Ég þekki því mála­rekstur bankans gagn­vart um­bjóðanda mínum á­gæt­lega – og sjálf­sagt betur en flestir. Búandi að þeirri þekkingu komu fyrr­greind um­mæli þín mér veru­lega á ó­vart,“ segir í opnu bréfi sem Garðar ritar Katrínu. 

Hann segir að hver sá sem skoðar málið af hlut­leysi taki eftir brota­lömum á mála­rekstri bankans og segir hann Má Guð­munds hafa farið hvað harðast fram. „Að baki öllum þessum mála­rekstri stóð Seðla­banki Ís­lands undir stjórn Más Guð­munds­sonar, seðla­banka­stjóra. Á­kvarðanir um mála­reksturinn voru hans – og svo sannar­lega bjó að baki þeim á­kvörðunum á­setningur til þeirra,“ skrifar Garðar. 

Hann rekur málið í bréfi sínu en það á upp­tök sín til ársins 2012. Á þeim tíma kærði bankinn Sam­herja tvisvar til sér­staks sak­sóknara sem felldi málið niður tví­vegis. Að lokum lagði bankinn 15 milljóna króna stjórn­valds­sekt á Sam­herja. 

Garðar segir á­nægju­legt að Katrín hafi sent banka­ráði Seðla­bankans bréf í gær þar sem óskað er eftir greinar­gerð um málið. „Bitur reynsla segir mér hins vegar að það sé ó­var­legt að treysta um of á við­brögð og af­greiðslu banka­ráðs Seðla­banka Ís­lands, svo oft sem at­beina þess og inn­grips var óskað undir með­ferð fyrr­greinds máls, án nokkurs árangurs,“ skrifar hann og biður for­sætis­ráð­herra að kynna sér vel dóm héraðs­dóms og Hæsta­réttar. 

Þá býður hann henni að koma á fund til að kynna sér málið út frá hlið Sam­herja og hitta þá ein­stak­linga „sem rang­lega voru sökum bornir“ af hálfu bankans. Hann kveðst ekki hissa að við­horf Katrínar myndi breytast eftir slíkt sam­tal. 

„Lögum sam­kvæmt er mikið vald falið seðla­banka­stjóra. Það vald mis­fór Már Guð­munds­son svo sannar­lega með við með­ferð fyrr­greinds máls. Sá sem mis­fer svo með opin­bert vald á ekki að fá að halda því,“ skrifar hann að lokum.

Bréf Garðars G. Gíslasonar í heild.