Hagnaður af rekstri Sam­fylkingarinnar nam 26,7 milljónum króna í fyrra. Flokkurinn hefur skilað inn sam­stæðu­reikningi til Ríkis­endur­skoðunar fyrir síðasta ár. 

Árið 2016 nam tap af rekstri flokksins rúm­lega 28 milljónum króna. Þá var eigið fé já­kvætt um 76,6 milljónir króna. 

Alls námu styrkir frá ein­stak­lingum 33,3 milljónum króna, af þeim 15,7 milljónir frá kjörnu fólki og nefndar­fólki. Þá hafi 17,5 milljónir safnast í sóknar­á­tökum. Fram­lög ríkisins til flokksins námu á árinu 2017 um það bil 23,1 milljónum króna og styrkir lög­aðila voru 6,7 milljónir króna.

Alls lögðu borgar­full­trúarnir Dagur B. Eggerts­son, Heiða Björg Hilmis­dóttir og Skúli Þór Helga­son 1,2 milljónir til flokksins, eða 400 þúsund hvert. Hjálmar Sveins­son borgar­full­trúi lagði 363 þúsund krónur til styrktar flokksins og Guð­jón S. Brjáns­son þing­maður 240 þúsund. 

Logi Einars­son, for­maður Sam­fylkingarinnar, segir árangurinn mjög á­nægju­legan, ekki síst í ljósi þess að árið 2017 fóru fram Al­þingis­kosningar og var kostnaður flokksins alls af þeim 20,4 milljónir króna.