Stjórnarformenn Íslandsbanka og Arion banka segja að það gæti verið eftirsóknarvert að sameina bankanna til að ná fram kostnaðarhagræði.

Þetta kemur fram í frétt Morgunblaðsins þar sem rætt er við Brynjólf Bjarnason, stjórnarformann Arion banka, og Friðrik Sophusson, stjórnarformann Íslandsbanka.

„Við myndum skoða það ef þannig myndi nást fram aukin hagræðing og betri rekstur. Slíkt er auðvitað eftirsóknarvert,“ segir Brynjólfur. „Ég tel eðlilegt að hagræðing eigi sér stað í bankakerfinu á Íslandi. Það er alveg ljóst að auka þarf hagkvæmni í rekstri banka.“

Friðrik Sophusson tekur í sama streng. Bankastarfsemi snúist að miklu leyti um stærðarhagkvæmni og af þeim sökum geti sameining innan bankakerfisins borgað sig.

„Slík ákvörðun er í höndum annarra aðila. Bankasýsla ríkisins þyrfti að koma með tillögu, sem Samkeppniseftirlitið þyrfti að samþykkja. Síðan þarf ráðherra að fengnum tillögum Bankasýslunnar að fara með málið til Alþingis, sem fjallar um málið eins og um sölu sé að ræða,“ segir Friðrik.

Markaðurinn greindi frá því fyrr í vikunni að stjórnvöld þyrftu að marka skýra stefnu til að bæta rekstrarumhverfi bankanna áður en ráðist verður í sölu á eignarhlut ríkisins í Íslandsbanka og Landsbankanum.

Á næstu vikum skilar Bankasýsla ríkisins ýtarlegri skýrslu um stöðu á bankamarkaði og tillögu um söluferli bankanna en nýlega var haft eftir Lárusi L. Blöndal, stjórnarformanni Bankasýslunnar, í Morgunblaðinu að unnt væri að hefja söluferlið á næsta ári.