Eftirspurn eftir ferðalögum á ákveðin svæði í heiminum er að dragast saman vegna aðgerða til að hefta útbreiðslu kórónaveirunnar sem veldur COVID-19 veirusjúkdómnum.

Icelandair segir of snemmt að segja til um möguleg áhrif þessarar þróunar á starfsemi flugfélagsins en að þessi staða skapi aukna óvissu þegar kemur að áætlaðri rekstrarniðurstöðu félagsins fyrir árið 2020.

Afkomuspá Icelandair Group fyrir árið 2020, sem félagið gaf út á markaðinn þann 6. febrúar síðastliðinn, er því ekki lengur í gildi og telja stjórnendur félagsins ekki mögulegt að gefa út áreiðanlega afkomuspá á þessum tímapunkti vegna þessarar óvissu. Þetta kemur fram í kauphallartilkynningu frá félaginu í dag.

„Útbreiðsla COVID-19 veirunnar og viðbrögð við henni eru að hafa áhrif á ferðahegðun á okkar markaðssvæði. Vegna þess erum við að greina hugsanlegar sviðsmyndir og móta aðgerðir til að draga úr þeim áhrifum sem þessi þróun kann að hafa á starfsemi félagsins. Öll áhersla verður lögð á að lágmarka áhrif á viðskiptavini okkar en ef mótvægisaðgerðir koma til með að hafa áhrif á flugáætlun, munum við upplýsa um það um leið og slíkar ákvarðanir liggja fyrir. Ég legg áherslu á að öryggi og velferð farþega og starfsfólks okkar er ávallt í fyrirrúmi,“ segir Bogi Nils Bogason, forstjóri Icelandair Group.

Áhöfnin fær þjálfun í að bregðast við smitsjúkdómum

Icelandair segist hafa gripið til ýmissa ráðstafana og aukið viðbragðsgetu innan félagsins til að bregðast við vegna útbreiðslu veirunnar. Félagið segist fylgjast grannt með þróun mála, er í reglulegum samskiptum við sóttvarnarlækni og Landlæknisembættið og fylgir leiðbeiningum og verkferlum embættisins á hverjum tíma.

Einnig er félagið sem fyrr í nánu samstarfi við alþjóðlegu læknaþjónustuna Medaire, sem sérhæfir sig í lækningum og forvörnum um borð í flugvélum og veitir ráðgjöf í rauntíma þegar veikindi koma upp og ef grunur kæmi upp um smit um borð.

Áhafnarmeðlimir hafa fengið viðamikla þjálfun sem meðal annars felur í sér viðbrögð við smitsjúkdómum.

Áhersla er lögð á reglulega upplýsingagjöf til áhafna og farþega sem og aukna vöktun. Félagið hefur uppfært verkferla og viðbragðsáætlanir í samvinnu við viðbragðsaðila hér á landi. Þá hefur verið gripið til varúðarráðstafana með viðbótarbúnaði um borð í flugvélum Icelandair, svo sem sótthreinsiefni, andlitsgrímum og hönskum.