Síðasta hópuppsögn færsluhirðisins Salt Pay, sem áður gekk undir nafninu Borgun, náði til ríflega 50 starfsmanna samkvæmt heimildum Markaðarins.

Greint var frá uppsagnahrinunni í fyrradag en samkvæmt tilkynningu frá Salt Pay hafði ákvörðunin áhrif á „talsverðan fjölda starfsfólks en þó aðallega þá sem störfuðu við að þróa og viðhalda eldra greiðslukerfi Borgunar.“

Alþjóðlega greiðslumiðlunarfyrirtækið Salt Pay gekk frá kaupum á Borgun í mars 2020 og hóf uppstokkun á starfseminni. Í ársreikningi félagsins fyrir árið 2019 kom fram að starfsmannafjöldi þess á árinu hefði að meðaltali verið 138.

Sem fyrr segir náði hópuppsögnin til ríflega 50 starfsmanna en við það bætast um 50 uppsagnir á síðasta ári. Má því ætla að minnst 100 starfsmönnum hafi verið sagt upp hjá Salt Pay frá byrjun síðasta árs. Aftur á móti hefur Salt Pay sagst hafa ráðið tugi starfsmanna á tímabilinu.

Eins og greint var frá í Markaðinum greiddi Salt Pay 27 milljónir evra, jafnvirði um 4 milljarða króna, fyrir 96 prósenta hlut í Borgun, sem var í meirihlutaeigu Íslandsbanka, en við undirritun kaupsamnings átti verðið að vera 35 milljónir evra. Þannig lækkaði kaupverðið um 8 milljónir evra vegna þeirra neikvæðu efnahagsáhrifa sem kórónaveirufaraldurinn hefur haft á rekstur félagsins.

Þá nam sölukostnaður seljenda, ráðgjafarkostnaður og árangurstengd þóknun, samtals yfir 20 prósentum af söluverðinu, eða nærri milljarði króna. Ekki er búið að greiða að fullu kaupverðið fyrir Borgun.