Íslandsbanki hefur í dag undirritað kaupsamning um sölu á 63,5 prósent hlut Íslandsbanka í Borgun hf. til Salt Pay Co Ltd. Samhliða sölu Íslandsbanka kaupir Salt Pay Co einnig eignarhlut Eignarhaldsfélagsins Borgunar slf., sem er samlagsfélag í eigu meðal annars Stálskipa og Einars Sveinssonar fjárfestis, og mun í kjölfar kaupanna fara með 95,9 prósenta hlutafjár í Borgun.

Markaðurinn greindi frá því í morgun að stefnt væri að því að ganga frá sölu á öllu hlutafé í Borgun í vikunni. Í frétt Markaðarins kom fram að kaupandinn væri erlenda greiðslumiðlunarfyrirtækið Salt Pay og að kaupverðið næmi um fimm milljörðum króna.

Kaupverðið er sagt trúnaðarmál í tilkynningu frá Íslandsbanka en salan muni hafa óveruleg áhrif á rekstur bankans. Leiðrétt fyrir rekstri Borgunar hefðu þóknanatekjur samstæðu Íslandsbanka fyrir árið 2019 dregist saman um 13 prósent, rekstrargjöld lækkað um 13 prósent og kostnaðarhlutfall lækkað um fjögur prósentustig. Salan hefur jákvæð áhrif á eiginfjárhlutföll bankans og lausafjárhlutföll lækka lítillega, en eru þó enn vel yfir markmiðum bankans og kröfum eftirlitsaðila.

Þá kom einnig fram í frétt Markaðarins að samkvæmt samkomulaginu myndu forgangshlutabréf í Visa Inc. ekki fylgja með. Bréfin, sem Borgun eignaðist þegar það seldi hlut sinn í Visa Europe á árinu 2016, eru bókfærð um þrjá milljarða króna í bókum félagsins en markaðsvirði þeirra er hins vegar talið verið lægra.

Eins og greint hefur verið frá í Markaðinum stóðu viðræður um kaupin um nokkurt skeið við tvö erlend félög, þar á meðal greiðsluþjónustufyrirtæki sem er meðal annars í eigu og stýrt af Ali Mazanderani, stjórnarmanni í Creditinfo Group. Í þeim viðræðum var gert ráð fyrir að kaupverðið fyrir Borgun yrði í kringum sjö milljarðar króna en ekki lá þá fyrir hvort áðurnefnd forgangshlutabréf í Visa Inc. yrðu látin fylgja með í kaupunum.

Viðskiptin eru gerð með fyrirvara um að Fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands veiti samþykki fyrir virkum eignarhlut kaupanda. Íslandsbanki mun frá og með deginum í dag flokka Borgun sem eign haldin til sölu til afhendingardags. Formlegt söluferli á hlut bankans í Borgun hófst í upphafi árs 2019.

Salt Pay er alþjóðlegt greiðslumiðlunarfyrirtæki með starfsemi í fjórtán löndum en fyrirtækið sérhæfir sig í vörum og þjónustu sem tengjast vildarþjónustu og CRM lausnum.

Starfsemi Borgunar skiptist í þrennt. Í fyrsta lagi kortaútgáfa en fyrirtækið gefur út kreditkort fyrir Íslandsbanka og Aur. Í öðru lagi í færsluhirðingu en starfsemin fer einkum fram í sex löndum; Íslandi, Bretlandi, Ungverjalandi, Tékklandi, Slóvakíu og Króatíu. Og í þriðja lagi í útlán, en þau fara m.a. fram með vöru- og þjónustukaupalánum í gegnum fjölda seljenda.