Verstu viðskipti ársins, að mati dómnefndar Markaðarins, voru sala bandaríska vogunarsjóðsins Taconic Capital á hlutabréfum í Arion banka. Taconic hóf að minnka hlut sinn í Arion banka skipulega í ársbyrjun 2020 en sjóðurinn átti 23,2 prósenta eignarhlut í bankanum áður. Eftir söluna fóru hlutabréf í bankanum á flug og hefur verðið tvöfaldast síðan þá.

„Taconic seldi tæplega 10 prósenta hlut í lok mars – hljóp síðan út og skellti á eftir sér. Sölur vogunarsjóða fram að því voru heldur betur súrar líka, þegar horft er til baka. En svona getur þetta verið þegar horft er í baksýnisspegilinn,“ segir einn álitsgjafa Markaðarins.

„Þetta greiddi auðvitað götu fyrir að það létti á stokknum, það er, fjárfestar fóru að hætta að hafa sífelldar áhyggjur af mögulegu framboði og bankinn hækkaði verðskuldað. En þetta væru þá mögulega ein af stærstu „slæmu viðskiptunum“ á árinu. Að sama skapi frábært fyrir markaðinn. Win-win!“ bætir hann við. Í rökstuðningi eins dómara í dómnefnd Markaðarins segir hann það hafa verið óheppilegt að sjóðurinn hafi verið í þessari stöðu árum saman, skipt síðan um forstjóra og selt bréfin rétt fyrir „take-off“.

„Erlendu vogunarsjóðirnir sem seldu Arion banka stöðurnar á fyrstu mánuðum ársins, naga sig eflaust í handarbökin í dag.“

Taconic var ekki eini vogunarsjóðurinn sem seldi í Arion á árinu og missti af góðri ávöxtun. Bandaríski vogunarsjóðurinn Sculptor Capital Management, seldi í Arion fyrir samtals um 16 milljarða króna á árinu.

„Erlendu vogunarsjóðirnir sem seldu Arion banka stöðurnar á fyrstu mánuðum ársins, naga sig eflaust í handarbökin í dag,“ segir einn álitsgjafa Markaðarins.

Þeir sem sátu í dómnefnd Markaðarins sögðu margir hverjir að tímasetning sölunnar hefði verið sérlega óheppileg.

„Hluthafarnir voru búnir að eiga lengi í Arion og seldu með miklu offlæði inn á markaðinn, akkúrat þegar Benedikt og hans teymi var að ná glimrandi tökum á rekstrinum, sem hefur sýnt sig. Seldu á afslætti og rétt áður en hlutabréfaverð fór á flug,“ komst einn að orði.

Annar nefnir að oft þurfi slíka sölu til að hlutabréfin nái sé á strik.

„Oft þarf slíka sölu svo að hlutabréfin nái sér á strik, en nærri 100 prósent ávöxtun frá áramótum er þokkaleg ávöxtun að missa, að því gefnu að söluverðmætið hafi ekki farið í aðra fjárfestingu sem hækkaði jafn mikið eða meira en Arion yfir tímabilið.“

Opinbert stríð hjá Alvogen hafnaði í öðru sæti

Halldór Kristmannsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Alvogen, og Róbert Wessman, stofnandi og forstjóri Alvogen, bárust á banaspjótum á opinberum vettvangi á árinu sem er að líða. Umrætt opinbert stríð hjá Alvogen hafnaði í öðru sæti í vali á verstu viðskiptum ársins.

Halldór Kristmannsson, fyrrverandi framkvæmdastjóri hjá Alvogen.

Fjöldi þátttakenda í dómnefnd Markaðarins telur að ímynd þeirra beggja hafi beðið hnekki fyrir vikið. Og að þeir hafi orðið að verja miklum tíma og andlegri orku í að láta andstæðinginn finna til tevatnsins. Hvorugur þeirra standi uppi sem sigurvegari – þótt árið hjá Róberti hafi annars reynst einkar gæfuríkt í viðskiptalífinu og fékk hann af þeim sökum atkvæði sem viðskiptamaður ársins í ljósi velgengni Alvotech.

Róbert Wessman, stofnandi og forstjóri Alvogen.

Í umsögn dómnefndar má lesa að „ekkert gott“ hafi komið út úr opinberum árásum þeirra á milli, „enginn kom vel út úr málinu“ og þeir hafi báðir „tapað á þessum illa ígrunduðu viðskiptum."

Viti ekki í hvorn fótinn eigi að stíga

Fasteignafélagið Reitir jók hlutafé sitt við lok árs 2020 á genginu 43, en ákvað að hefja kaup á eigin bréfum í október, þegar gengið var 75 eða 74 prósentum hærra en í hlutafjáraukningunni. Í hlutafjárútboðinu fyrir um ári safnaði fasteignafélagið rúmlega fimm milljörðum króna, en skömmu síðar, eða í febrúar, greiddi félagið 778 milljónir í arð. Þessi viðskipti höfnuðu í þriðja sæti í vali dómnefndar Markaðarins á verstu viðskiptum ársins.

Guðjón Auðunnsson, forstjóri Reita.

„Þetta eru undarleg viðskipti. Reitir virðast ekki vita í hvorn fótinn það á að stíga. Félagið safnaði fé frá hluthöfum en dælir því skömmu seinna aftur út á mun hærra gengi í endurkaupum. Hafa ber í huga að einkafjárfestar þurfa að standa straum af fjármagnstekjuskatti af arðgreiðslunni,“ segir í umsögn dómnefndar.

„Reitir geta ekki skellt skuldinni á óvissu í efnahagslífinu, enda brugðu önnur félög í Kauphöllinni ekki á þetta ráð. Stjórnendur hlupu á sig,“ segir í annarri umsögn.