Verðmat Jakobsson Capital á Símanum jókst um 1,4 milljarða króna við sölu á upplýsingatæknifyrirtækinu Sensa. Samkvæmt verðmatinu er Síminn metinn á 61,8 milljarða króna eða 7,3 krónur á hlut. Gengi félagsins var 7,98 við lok markaðar í gær.

Arðsemi Sensa, sem býður meðal annars upp á skýjalausnir, hefur verið lág. Hlutfall rekstrarhagnaðar Sensa var um þrjú til fjögur prósent á árunum 2018 og 2019. Við söluna eykst framlegðarhlutfall Símans „umtalsvert“. Aftur á móti felast meiri tækifæri til vaxtar hjá Sensa en í grunnrekstri Símans. Tekjur fyrirtækisins jukust um tíu prósent á milli áranna 2019 og 2020, að því er segir í verðmatinu.

Heildarvirði Sensa, það er samanlagt virði hlutafjár og skulda, var 3,3 milljarðar króna í sölu til Crayon Group Holding.