Korn Íslandsbanka fjallar í dag þróun nýskráninga bifreiða það sem af er ári, en Bílgreinasambandið sendi frá sér upplýsingar um það í gær. Þar kemur fram að alls voru 3.218 nýir fólksbílar seldir á fyrsta ársfjórðungi. Jafngildir það 54 prósenta aukningu frá sama tíma í fyrra og ekki hafa verið seldir fleiri fólksbílar á fyrsta ársfjórðungi frá árinu 2018.

Nýskráningar eru fleiri nú en á sama tíma 2019

Einstaklingar keyptu ríflega helming þeirra nýju fólksbíla sem seldust á fyrsta ársfjórðungi. Alls keyptu íslensk heimili 1.675 nýja fólksbíla á tímabilinu og jukust kaup þeirra á nýjum bifreiðum um 33 prósent frá sama tíma í fyrra. Enn meiri var hlutfallsleg aukning milli ára í sölu til bílaleiga. Ökutækjaleigur keyptu 1.030 nýjar fólksbifreiðar á fyrsta ársfjórðungi og þar af ríflega helminginn í marsmánuði. Samsvarar það ríflega þreföldun frá bílakaupum þeirra á sama tíma í fyrra. Eru bílaleigurnar þar að búa í haginn fyrir ferðasumarið en vísbendingar eru um að ferðamönnum á háannatíma þetta árið muni fjölga mikið frá sama tíma í fyrra, líkt og líkt og fjallað var nýlaga um í Korni.

Bílaleigur hafa þrefaldað bílakaup sín frá sama tíma í fyrra.

Stígandi í bifreiðakaupum einstaklinga undanfarin ár er athyglisverður og er að mati hagfræðinga Íslandsbanka til marks um sterka stöðu heimilanna almennt þrátt fyrir miklar sviptingar í efnahagslífinu. Eins og sjá má af myndinni skýrist niðursveifla í sölu nýrra bifreiða árið 2020 nær alfarið af samdrætti í fjárfestingu bílaleiga. Á árinu 2020 jukust kaup einstaklinga á nýjum bílum um rúm 7 prósent frá árinu 2019 og í fyrra nam aukningin 20 prósentum á milli ára. Efalítið hafa þættir á borð við hagstæðari vaxtakjör á bílalánum og færri möguleika til neysluútgjalda á borð við utanlandsferðir haft áhrif meðan faraldurinn stóð sem hæst. Áframhaldandi vöxtur er hins vegar til marks um að heimilin virðast halda sínu striki þrátt fyrir auknar utanlandsferðir og vaxtahækkun á bílalánum.

Svo virðist sem bílasala og nýskráninagar séu að taka vel við sér.

Gallup birti nýverið ársfjórðungslega mælingu á stórkaupavísitölu þar sem meðal annars er spurt um áformuð bifreiðakaup heimila. Samkvæmt könnuninni telja tæplega 17 prósent svarenda ýmist mjög eða frekar líklegt að þau hyggi á bifreiðakaup á komandi mánuðum. Þetta hlutfall hækkaði jafnt og þétt framan af síðasta ári og hefur nú aftur tekið við sér eftir tímabundið bakslag á lokafjórðungi liðins árs. Verður því vart annað séð en áfram verði talsverður gangur í bifreiðakaupum landsmanna, en kaup á nýjum bílum eru veigamikill hluti af útgjöldum heimila vegna varanlegra neysluvara.

Framangreind þróun styður því við hagvísa á borð við kortaveltu og Væntingavísitölu Gallup sem benda til þess að einkaneysla hafi vaxið myndarlega á fyrsta ársfjórðungi og að horfur séu á áframhaldandi vexti á komandi mánuðum. Óvissa um einkaneysluþróunina í ár hefur þó aukist vegna stríðsins í Úkraínu og gæti framvinda mála þar sett strik í reikninginn þegar líður á árið.