Sala innviða myndi vafalaust hraða 5G-ferli Sýnar ef hagstæð verð fæst fyrir innviðina. Ef vel gengur með þessar áætlanir má leiða líkur að því að viðskiptin skapi virði fyrir fjárfesta. Þetta kemur fram í verðmati Landsbankans.

Landsbankinn mælir með kaupum í Sýn. Verðmatsgengið er 35,2 krónur á hlut. Markaðsgengið er 31,9 þegar þetta er ritað. Munurinn er tíu prósent. Í ljósi þess hve stutt á veg söluferli innviða er komið tekur bankinn ekki tekið tillit til þess í nýju verðmati sem Markaðurinn hefur undir höndum.

Fram hefur komið í árshlutauppgjöri Sýnar að til athugunar væri að bjóða hluta farsímakerfisins til sölu sem myndi skila umtalsverðu fjármagni til hluthafa.

Landsbankinn segir að Sýn muni ekki selja sendana sjálfa heldur einungis landið og staurana. Fjarskiptafyrirtæki leigja svæði á turnunum þar sem þau geta sett upp sína senda.

Samkeppni í virka búnaðinum

Heiðar Guðjónsson, forstjóri Sýnar, hefur sagt við Markaðinn að stór hluti af fjarskiptakerfinu séu óvirkir eða „dauðir“ innviðir, eins og hann lýsir þeim, og á við rafkerfi og sendaturna. Samkeppni fjarskiptafyrirtækja felist í virka búnaðinum, það er hvernig sendarnir sem eru á stálturnunum virka.

Rekstur innviða annars eðlis

„Tækifærið sem Sýn sér er að bæta nýtingu fjármuna félagsins og losa fé sem nýta má í aðra uppbyggingu, niðurgreiðslu skulda eða til hluthafa,“ segir í verðmati Landsbankans. „Rekstur innviða er í eðli sínu öðruvísi fjárfesting en þjónustufyrirtæki á fjarskiptamarkaði. Sérstakt félag sem á og rekur sendastaði mun ekki vera bundið við að þjónusta einn aðila á markaði, heldur getur það leigt svæði á turnum til margra þátttakenda á markaði. Slíkt ætti að bæta nýtingu fjármuna. Einnig ætti sérstakt félag sem er óháð einstaka þjónustufyrirtækjum að búa við minni byrði vegna regluverks, sem hefur verið tilefni fjölda dómsmála á fjarskipta og afþreyingarmarkaði undanfarin ár. Vegna mismunandi eðlis rekstrar þjónustu og innviða félaga ætti aðskilnaður að skerpa fókus stjórnenda hvors félags. Þá er ávöxtunarkrafan á innviðafélag og fjarskiptafélag töluvert frábrugðin og innviðafélag líklegra til þess að laða að langtímafjárfesta,“ segir bankinn.

Stjórnendur nefndu 17-25 sinum EBITDA sem einhverskonar viðmiðunarverðlagningu en ekki hefur verið upplýst um hver afkoman af rekstri sendanna er, að því er fram kemur í verðmati Landsbankans.