Jón Björnsson, forstjóri Origo, segist sakna stemningarinnar á skrifstofunni í COVID-19. „Ég saknaði oft á þessum tímum að sjá aðgerðir hins opinbera betur tengdar þeim takmörkunum sem sóttvarnirnar settu á sumar greinar atvinnulífsins. Í rekstri gerir maður alltaf plön sem gera ráð fyrir að umhverfið geti orði svona til framtíðar og því þurfum við að mæta þeim aðstæðum og læra að lifa við nýjan raunveruleika,“ segir hann.

Hvað gekk vel á árinu 2020?

„Í lok mars síðastliðins sat ég á stjórnarfundi í skandinavísku netverslunarfyrirtæki og forstjórinn lýsti því yfir að líklega væri árið 2020 farið og nýja planið væri að stefna á að ná því á árinu 2021 sem við höfðum stefnt að 2020. Þremur mánuðum síðar sat ég aftur á stjórnarfundi hjá sama fyrirtæki, nú í gegnum fjarfund. Það var komið allt annað hljóð í strokkinn hjá forstjóranum. Ljóst var að þær aðstæður sem væru komnar upp gerðu það að verkum að við værum að sjá fleiri nýja viðskiptavini en nokkru sinni áður. Allt liti út fyrir að við myndum ná 2021 markmiðunum núna árið 2020 slík væri neyslubreytingin af COVID-19. Það má því segja að vírusinn hafi orsakað einhverja mestu umbreytingu í hinum stafræna heimi og fært alla þróun fram um 2-3 ár á nokkrum mánuðum.

Þegar ég svo kom til Origo fyrir rétt rúmum 3 mánuðum var allt á fleygiferð í sömu vegferð. COVID-19 var mesti umbreytingarkraftur í stafrænum málum sem fyrirtækið hefur séð í nokkur ár. Á meðan ég reyndi að kynna mér fyrirtækið varð ég vitni að frábærri aðlögun starfsfólks að nýjum aðstæðum þar sem færri mættu á skrifstofu og unnu í stað heiman að frá sér og nýttu sér alla þá tækni sem til er til að halda áfram með alls kyns krefjandi verkefni. Sjálfur sakna ég skrifstofustemningarinnar og þeirrar dýnamíkur og hugmyndasköpunar sem hún býr til, en sé líka tækifærin í að geta búið til umhverfi sem hentar frábæru fólki í að blómstra. Það er án efa stærsti ávinningurinn.“

„Sjálfur sakna ég skrifstofustemningarinnar og þeirrar dýnamíkur og hugmyndasköpunar sem hún býr til, en sé líka tækifærin í að geta búið til umhverfi sem hentar frábæru fólki í að blómstra.“

Hvað var krefjandi á árinu sem er að líða?

„Sum fyrirtæki hafa lent á vegg á árinu. Án nokkurrar viðvörunar var rekstrargrundvelli fjölmargra fyrirtækja kippt undan þeim og á meðan sum fyrirtæki glímdu við hraðar breytingar þurftu önnur að glíma við gríðarlega erfiðar aðstæður þar sem rekstrarumhverfi þeirra breyttist dag frá degi án þess að fyrirtækin ættu yfirhöfuð möguleika á að bregðast við þeim. Slíkar breytingar taka á og við eigum eftir að bíta úr nálinni með hvernig við komum út úr þessu. Ég saknaði oft á þessum tímum að sjá aðgerðir hins opinbera betur tengdar þeim takmörkunum sem sóttvarnirnar settu á sumar greinar atvinnulífsins. Í rekstri gerir maður alltaf plön sem gera ráð fyrir að umhverfið geti orði svona til framtíðar og því þurfum við að mæta þeim aðstæðum og læra lifa við nýjan raunveruleika. Atvinnugreinar hafa áður aðlagast og breytt sér, en það getur þurft að hjálpa þeim þegar umhverfið breytist fyrirvaralaust.“

Hvernig horfir árið 2021 við þér í rekstrinum?

„Upplýsingatækni er ekki lengur stoðdeild í fyrirtæki heldur sá umbreytingarþáttur sem ræður mestu um hvernig þú kemur þeirri vöru eða þjónustu sem þú ert að selja eða koma á framfæri. Sterk félög eru því í auknum mæli að sjá að fjárfesting í slíkri umbreytingu skilar sér beint í tekjumyndun félagsins og möguleikum þess að vera framarlega á sínu sviði.“