Bandaríska dómsmálaráðuneytið hefur ákært Mike Lynch, fyrrverandi forstjóra Autonomy, í tengslum við 11 milljarða dala sölu á hugbúnaðarfyrirtækinu til tölvurisans Hewlett-Packard fyrir sjö árum.

Lynch, sem er ákærður í fjórtán liðum fyrir svik og samsæri, gæti átt yfir höfði sér allt að tuttugu ára fangelsisdóm verði hann fundinn sekur. Bandarísk yfirvöld hafa jafnframt krafist þess að hann greiði um 815 milljónir dala í sekt en sú fjárhæð jafngildir hagnaði hans af sölu Autonomy, félagsins sem Lynch stofnaði og rak.

Stephen Chamberlain, fyrrverandi yfirstjórnandi hjá Autonomy, var jafnframt ákærður í málinu.

Sushovan Hussain, fyrrverandi fjármálastjóri hugbúnaðarfyrirtækisins, var fyrr á árinu sakfelldur fyrir svipuð brot og Lynch er sakaður um, að því er segir í frétt Financial Times um málið.

Bandaríska dómsmálaráðuneytið sakar þá Lynch og Chamberlain um að hafa falsað fjárhagstölur Autonomy frá því í byrjun árs 2009 þar til í október 2011, þegar tilkynnt var um yfirtöku HP á fyrirtækinu. Í ákæru ráðuneytisins eru tiltekin 28 tilvik þar sem stjórnendurnir fyrrverandi eru sagðir hafa gefið út ósannar yfirlýsingar um fjárhagsstöðu Autonomy.

Lynch seldi HP félagið árið 2011 fyrir 11 milljarða dala sem jafngildir um 1.350 milljörðum króna miðað við núverandi gengi. Ári eftir söluna sakaði Meg Whitman, þáverandi forstjóri HP, hann og aðra stjórnendur Autonomy um að hafa fegrað vísvitandi fjárhagstölur fyrirtækisins. Þurfti HP að færa niður eignir í bókum sínum að virði 8,8 milljarða dala.

Lögmenn Lynch kölluðu ákæruna „skrípaleik“ og sögðu að skjólstæðingur sinn hygðist verjast ásökununum af fullum krafti.