365 hafnar al­farið á­sökunum Sýnar hf. um að fé­lagið, á­samt Ingi­björgu Pálma­dóttur og Jón Ás­geiri Jóhannes­sonar, hafi brotið á sam­keppnis­á­kvæðum í kaup­samningi Sýnar hf. við 365 hf. en í yfir­lýsingu um málið stað­festir fé­lagið að þeim hafi borist kröfu­bréf frá Sýn. Krafa Sýnar nemur 1.140 milljón krónum, auk verðbóta.

Fram kom í árs­reikningi Sýnar ehf. að kröfu­bréf hafi verið sent í desember í fyrra en kröfunni var mót­mælt af hálfu Ingi­bjargar, Jóns Ás­geirs og 365 hf. með bréfi þann 20. desember. Þá lagði Sýn einnig fram kröfu á hendur Torgs ehf., sem sér um út­gáfu Frétta­blaðsins. Sam­kvæmt árs­reikningi Sýnar hefur lög­manni fé­lagsins verið falið að undir­búa höfðun dóms­máls.

Ásakanirnar fjarstæðukenndar

„Hvergi er hægt að benda á að 365 hafi staðið í sam­keppni við Sýn á sviði sjón­varps, út­varps eða fjar­skipta, eða á annan hátt sem fé­laginu var ekki heimilt sam­kvæmt um­ræddu sam­keppnis­á­kvæði,“ segir í yfir­lýsingu 365 og segir fé­lagið að á­sakanir Sýnar séu fjar­stæðu­kenndar og eigi sér enga stoð í samningnum.

For­svars­menn 365 hafa fengið þetta stað­fest með á­litum þriggja lög­manns­stofa og í­huga nú að gagn­stefna Sýn vegna þess tjóns sem á­sakanir Sýnar hafa valdið fé­laginu. „At­hygli er vakin á því að þetta yrði ekki fyrsta dæmi þess að Sýn leggi upp í veiði­ferð með vafa­sömum mála­til­búnaði fyrir dóm­stólum,“ segir að lokum í yfir­lýsingu frá 365.

Líkt og Frétta­blaðið hefur greint frá hefur Torgi ekki borist stefna frá Sýn vegna málsins en sam­kvæmt Sýn sam­rýmdust á­kveðnir þættir í starf­semi fretta­bladid.is ekki þeim skuld­bindingum sem fram komu í kaup­samningnum. Að sögn Jóhönnu Helgu Viðars­dóttur, for­stjóra Torgs ehf., er ekki hægt að sjá hvernig stefnan gæti tengst Torgi.