Fyrrverandi stjórnarmenn flugfélagsins WOW air gagnrýna harðlega því sem lýst er sem rangfærslum og aðdróttunum í skrifum Stefáns Einarssonar, viðskiptaritstjóra Morgunblaðsins, í tilkynningu sem send var á fjölmiðla í dag.
Tilefnið er frétt Stefáns sem birtist í Morgunblaðinu í dag með fyrirsögninni „Sækja á 2,8 milljarða tryggingu.“ Í henni er fjallað um tilraunir slitabús flugfélagsins og kröfuhafa til að fá bætt tjón sem „þessir aðilar telja sig hafa orðið fyrir vegna ákvarðana stjórnenda og stjórnar WOW air,“ líkt og það er orðað í fréttinni.
Í tilkynningu stjórnarmeðlima segir að fréttin sé sett í „undarlegt samhengi.“ Segir þar að því sé haldið fram að félagið hafi keypt stjórnendatryggingu á ögurstundu. Það sé ekki aðeins villandi heldur beinlínis rangt. „Á ögurstundu stendur fyrirtækjum ekki til boða að kapa stjórnendatryggingar.“
Segja stjórnarmennirnir að hið rétta sé að stjórn og stjórnendur WOW air hafi verið með stjórnendatryggingu „frá fyrsta degi og var hún reglulega endurnýjuð, eins og aðrar tryggingar félagsins.“
Fullyrt er í yfirlýsingunni að ekkert nýtt sé að finna í skrifum Stefáns,um gamla frétt sé að ræða. „Það er eðlilegt að aðilar sem telja sig hafa orðið fyrir tjóni í kjölfar gjaldþrots leiti leiða við að fá tjón sitt bætt. Það er einnig þekkt að það getur verið tvíbent að hafa stjórnendatryggingar, enda getur komið á daginn að kröfuhafar láti reyna á að sækja í trygginguna, sem þeir hefðu hugsanlega ekki gert ef slíkri tryggingu væri ekki til að dreifa.
Kröfur voru gerðar í trygginguna á síðasta ári um það leyti sem hún rann úr gildi, en ekkert hefur hins vegar gerst í málinu síðan - engar frekari kröfur hafa verið gerðar né nokkrar umleitanir átt sér stað.“
Segja fréttaflutninginn mótsagnakenndan
Þá fullyrða stjórnarmennirnir jafnframt að Stefán Einar sé í mótsögn við sjálfan sig. Orðalag hans um „veikburða tilraun til að forða félaginu frá gjaldþroti“ stangist á við fullyrðingar hans um stórtækar björgunartilraunir, sem birtist framar í sömu frétt.
„Tilraunir til að bjarga WOW air voru ekki veikburða og virðist ætlun höfundarins sú að gera lítið úr þeim aðgerðum sem farið var í til að reyna að bjarga félaginu. Það hafði gríðarlega mikla þýðingu fyrir framtíð félagsins að allir skyldu leggjast á eitt um björgun þess. Þetta ætti að vera hverjum sem er ljóst þegar nánast öll flugfélög heims standa nú í viðamiklum björgunaraðgerðum. En því miður fór sem fór með ömurlegum afleiðingum.“
Þá segja þeir að það sé „fjarri sannleikanum“ að stjórnin sé klofin og „hafi eytt undanförnum mánuðum í að undirbúa varnir sínar vegna fram kominna krafna,“ líkt og Stefán haldi fram.
„Ítrekaður fréttaflutningur viðskiptaritstjóra Morgunblaðsins og höfundar bókarinnar um fall WOW air af málinu byggir því ýmist á rangfærslum eða endurteknu efni.“