Breska stórverslunin Sainsbury's hættir öllum viðskiptum við Samherja. Ákvörðun Sainsbury's er enn ein ágjöfin á Samherja í kjölfar afhjúpunar á Samherjaskjölunum. Þetta kemur fram á fréttavef Undercurrent News.

Sainsbury's keypti frosinn þorsk, lax, ýsu og ufsa af Ice Fresh Seafood, dótturfyrirtæki Samherja í Grimsby.

Að sögn forsvarsmanna Sainsbury's var ákveðið að slíta viðskiptum við Samherja áður en Samherjaskjölin litu dagsins ljós. Þetta hafi verið í undirbúningi í langan tíma. Sainsbury's hefur sagt upp 20 starfsmönnum vegna breytingarinnar.

Stjórnendur verslunarkeðjunnar Marks & Spencer (M&S) hafa fylgst náið með fjölmiðlaumfjöllun um Samherjamálið að því er fram kemur í frétt Undercurrent.

„Þrátt fyrir að Samherji sé enn birgðasali okkar, þá kaupum við ekki fisk frá starfsemi þeirra í Namibíu. Við erum mjög skýr varðandi kröfur okkar um að birgðasalar okkar starfa lögum samkvæmt og við tökum þessum ásökunum mjög alvarlega,“ sagði talsmaður M&S í samtali við Undercurrent News.