Sigurður Svansson, meðeigandi hjá auglýsingastofunni Sahara, segir að með því að koma á fót erlendu teymi í Bandaríkjunum verði auðveldara fyrir stofuna að aðlagast alþjóðlegum verkefnum þar sem enska sé oft aðaltungumálið. Þetta kemur fram í samtali við Markaðinn.

Auglýsingastofan Sahara mun opna útibú í Orlando í Flórída í Bandaríkjunum í janúar, eins og Viðskiptablaðið greindi frá á fimmtudaginn. Sigurður segir í samtali við Markaðinn að stefnt sé á að fimm manna teymi verði við störf í Orlando við árslok 2022.

Hann segir að auglýsingastofan hafi verið annast herferðir í Bandaríkjunum fyrir fjölmörg fyrirtæki . „Því höfum við haft augastað á að setja upp erlent teymi sem myndi bæta þjónustu okkar við þessi fyrirtæki,“ segir hann.

Sigurður segir að til að sækja erlenda viðskiptavini sé mikilvægt að vera á svipuðum stað og svipuðu tímabili til að efla þjónustu við þá. Nú þurfi starfsmenn Sahara á Íslandi oft að funda á kvöldin með þeim sem staðsettir séu í Bandaríkjunum vegna tímamismunar. Fram kom í frétt Viðskiptablaðsins að fimm starfi hjá Sahara í alþóðlegu teymi.

Að sögn Sigurðar muni Sahara ráða bandaríska starfsmenn sem hafi reynslu af því að sjá um samfélagsmiðla og herferðir í Bandaríkjunum. Ráða eigi starfsmenn sem hafi þekkingu á auglýsingastjórnun á miðlum sem hafi ekki verið aðgengilegir íslenska markaðnum eins og TikTok, Snapchat, Spotify og Pinterst og af þeim sökum sé minni þekking á þeim á meðal íslenskra starfsmanna.

Sigurður segir að Sahara vilji komast í meira návígi við tæknirisana í Bandaríkjunum til að fá betri þjónustu en Ísland verði oft út undan hvað það varðar.

Auglýsingastofan hafnaði í 11. sæti yfir frábæra staði til að vinna fyrir í Evrópu, samkvæmt lista Great Place to Work.

Sigurður, sem flytja mun til Orlando innan skamms, segir mikilvægt skref í uppbyggingu auglýsingastofunnar á erlendri grundu að senda starfsmann sem þekki reksturinn vel, ferlana og hvernig stofan nálgist verkefnin.