Auglýsingastofan Sahara býður nú upp á birtingaþjónustu varðandi hefðbundna miðla en hingað til hefur hún nær eingöngu veitt ráðgjöf við birtingar á stafrænum miðlum. „Birtingaþjónusta Sahara mun ekki þiggja þjónustulaun frá fjölmiðlum í tengslum við birtingaþjónustuna, þess í stað renna þjónustulaun beint í vasa viðskiptavina Sahara. Við munum eingöngu rukka fyrir tímavinnu og kerfiskostnað í tengslum við birtingaþjónustu okkar. Þjónustan er boðin í mismunandi pökkum eftir umfangi ráðgjafar og kostnaður við ráðgjöfina er því fastur og þekktur fyrir fram,“ segir Davíð Lúther Sigurðarson, framkvæmdastjóri auglýsingastofunnar.

Sahara hefur frá stofnun veitt ráðgjöf um birtingar á stafrænum miðlum, eins og Facebook, Google, Instagram, YouTube og LinkedIn. Hann segir að seldur tími henti viðskiptamódeli Sahara vel. „Viðskiptavinir okkar hafa kallað eftir því að við tökum að okkur birtingar fyrir aðra miðla líka enda erum við alhliða auglýsingastofa og höfum ekkert á móti hefðbundnum miðlum þó þeir hafi ekki verið í forgrunni hjá okkur hingað til. Við sjáum eftirspurn eftir slíkri nálgun á hefðbundinni birtingaþjónustu og við erum að bregðast við því,“ segir hann.

Davíð Lúther segir margar auglýsingastofur og birtingahús nýta sér umfangsmiklar rannsóknir og dýrar kannanir til að greina fjölmiðlalandslagið. „Við ætlum okkur að vinna þessa þjónustu faglega og kaupa öll þau gögn sem í boði eru til að tryggja faglega nálgun,“ segir hann.

Jón Heiðar Gunnarsson, yfirmaður birtingamála.
Mynd/Aðsend

Jón Heiðar Gunnarsson hefur verið ráðinn yfirmaður birtingamála. Hans hlutverk er að leiða þessa uppbyggingu en hann hefur sinnt birtinga- og markaðsráðgjöf fyrir mörg af þekktustu og stærstu vörumerkjum landsins síðastliðin ár.

Davíð Lúther segir að auglýsingastofur hafi almennt fundið fyrir samdrætti í fyrra í ljósi efnahagsþrenginga. „Það er ódýrara að birta stafræna auglýsingar og því gekk okkur betur á árinu 2020 en ætla mætti af aðstæðum í efnahagslífinu. Fyrri hluti ársins var erfiður en við höfðum engu að síður um það bil 90 prósent af tekjum ársins 2019 á árinu 2020 og erum lítillega undir EBITDA-hlutfalli árinu á undan,“ segir hann. Útlit sé fyrir að fyrirtækið hafi verið rekið með hagnaði árið 2020.